Baráttusigur í Breiðholti og stelpurnar áfram í bikarnum

Það var vægast sagt skítkalt á ,,tjaldsvæðinu” í Austurbergi þegar stuðningsmenn FH vöknuðu þar í morgun. Við opnum þessa skýrslu á því, að vara alla þá sem ætla sér að gista í tjaldi í mínusgráðunum að (í guðanna bænum) spyrja sér reyndari einstaklinga um málið áður en hælarnir eru bókstaflega hamraðir í jörðina. Árna Frey var svo kalt að hann komst ekki á leikinn. Ekki veit ég hvað ofkæling er, en læknarnir upp á Hringbraut virtust taka málið afar alvarlega.

FH-ingar á pöllum Austurbergsins í dag. Einhverjir áttu útilegu að baki, aðrir ekki. / Mynd: Brynja T.

En að leiknum. FH-liðið hefur ekki riðið feitum hesti í bikarkeppninni síðustu ár. Það hefur satt að segja gengið bölvanlega að komast áfram úr 1. umferð. Því var mikilvægt að vinna þennan leik og koma í veg fyrir að það myndaðist frekari hefð fyrir því að falla strax út úr bikarnum. Andstæðingurinn var topplið ÍR úr Grill 66 deildinni, einn helsti keppinautur FH-liðsins um sæti í Olísdeildinni á næsta tímabili. Það var því þörf á frábærum leik ef liðið átti að tryggja sig áfram.

Það var stál í stál fyrstu mínútur og lítið skorað en staðan var 1-1 eftir fimm mínútur. Þá datt sóknin okkar í gang og á tíundu mínútu kom Hildur Guðjónsdóttir okkur í 1–4. Ekki bara var vörnin hjá okkur afar samheldin heldur virtist einfaldlega ómögulegt fyrir ÍR-inga að koma boltanum framhjá Ástríði Þóru í markinu. Næst mark þeirra kom á 14. mínútu og virtist það endurnýja trú þeirra á verkefninu. Tinna Húnbjörg fór að loka rammanum hjá ÍR og vörnin þéttist. Þetta leiddi til þess að Roland tók leikhlé á 20. mínútu í stöðunni 5–6.

Ástríður Þóra varði vel í marki FH-liðsins í dag / Mynd: Brynja T.

Ótal sóknir fóru í súginn hjá báðum liðum það sem eftir lifði hálfleiks. Þéttar varnir og frammistaða Ástríðar og Tinnu leiddu til þess að liðin fóru inn í klefa eftir að hafa skorað einungis 15 mörk samtals í fyrri hálfleik; staðan 6-9 FH í vil.

Það var jafnt á með liðunum í upphafi seinni hálfleiks. Það voru stórskytturnar Hildur Guðjóns og Sylvía Blöndal sem að kláruðu flestar sóknir FH á fyrstu 10 mínútunum en á sama tíma var það Sigrún Ása Arngrímsdóttir sem var FH-vörninni erfiðust hinum megin. Sóknir liðana voru farnar að taka við sér og þegar korter var liðið af seinni hálfleik var staðan 14-16 FH í vil, jafnmörg mörk skoruð í seinni hálfleik og í öllum þeim fyrri.

Diljá er með taugar úr stáli og lokaði þessum leik með síðustu tveimur mörkum hans / Mynd: Brynja T.

Seinasta korterið var hinsvegar keimlíkt fyrri hálfleik. Fá mörk skoruð og spennan magnaðist við hverja sókn. Liðin skiptust á að fara með forystu og voru áhorfendur hreinlega að fara á taugum. Þegar ein og hálf mínúta var eftir tók Roland leikhlé í stöðunni 21-20 og FH á leið úr bikarnum. Við tók hröð sókn þar sem boltinn barst á Diljá í horninu sem jafnaði í 21-21. ÍR liðið hélt í sókn og var komið nær strax í vandræði. Að lokum neyddust þær til að stilla upp fyrir Kareni Tinnu Demian úr aukakasti en sú hafði nú þegar skorað tvo úr svipaðri stöðu fyrr í leiknum.

En ekki í þetta skiptið og skot hennar geigaði þegar 17 sekúndur voru eftir. FH-stelpur virtust ekki vera að flýta sér að fara í sókn en allt í einu varð hraðabreyting og eftir stutt spil barst boltinn á Diljá í horninu sem fór inn úr þröngu færi og skoraði á síðustu sekúndu leiksins. Mikil fagnaðarlæti brutust út með liðsins og áhorfenda enda hrikalega erfiðum átakaleik lokið með dramatískum sigri. Lokatölur 21-22, FH í vil.

7 mörk í 7 skotum, geri aðrir betur! Hildur fór á kostum í dag / Mynd: Brynja T.

Í markaskorun fóru skytturnar Hildur og Sylvía fyrir markaskorun FH-liðsins, báðar með 7 mörk – og þar af var Hildur með fullkomna nýtingu, 7 mörk í 7 skotum. Stórkostleg frammistaða. Í markinu varði Ástríður Þóra eins og áður sagði afar vel, en hún var með 14 varða bolta.

Næsti leikur stelpnanna okkar er miðvikudaginn 7. nóvember næstkomandi, en þá kemur Valur U í heimsókn í Mekka. Meira um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!

– Gimmi

Mörk FH: Hildur Guðjónsdóttir 7, Sylvía Björt Blöndal 7, Ragnheiður Tómasdóttir 4, Diljá Sigurðardóttir 3, Aníta Theodórsdóttir 1.
Varin skot: Ástríður Þóra Viðarsd. Scheving 14.

Aðrar fréttir