Betur má ef duga skal

Eftir lofandi byrjun máttu stelpurnar okkar sætta sig við 13 marka tap gegn vel mönnuðu liði ÍBV á laugardag. Lokatölur 14-27, og er lið FH því enn án stiga á botni Olísdeildar kvenna.

Fyrstu 19 mínútur leiksins hékk FH-liðið vel í gríðarlega sterku liði gestanna frá Eyjum. Eftir 20 mínútna leik var staðan jöfn, 5-5, en eins og hún gefur til kynna var varnarleikur í fyrirrúmi til að byrja með. Eins misstu liðin boltann töluvert á þessum kafla, sem spilaði ákveðna rullu í stöðunni.

Á þriggja mínútna kafla, frá 19-22. mínútu, skoruðu Eyjakonur fjögur mörk í röð og breyttu stöðunni í 5-9. Reyndist þessi kafli vera vendipunkturinn í leiknum, en eftir þetta varð munurinn aldrei minni. Hálfleiksstaðan var 8-15, ÍBV í vil.

Andrea Valdimarsdóttir átti flottan leik á báðum endum vallarins / Mynd: Brynja T.

Mest náðu FH-stelpur að minnka muninn í 5 mörk í síðari hálfleik, en komust ekki nær en það. Til þess vantaði um of upp á sóknarleikinn. Eyjakonur tóku Britney Cots úr umferð frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu, og hafði það óneitanlega áhrif.  Þá var markvörður Eyjamanna, Darja Zecevic, vægast sagt öflug í seinni hálfleik en hún varði 10 af þeim 13 skotum sem hún fékk á sig. Það gerir 76.9% markvörslu, sem er ótrúleg tölfræði.

Markahæst í liði FH að þessu sinni var Emilía Ósk Steinarsdóttir með 4 mörk, og þá skoruðu Fanney Þóra Þórsdóttir og Andrea Valdimarsdóttir 3 mörk hver. Andrea var best FH-stelpna í leiknum, en hún var með fullkomna nýtingu úr horninu auk þess sem hún fiskaði 2 víti og stal 2 boltum. Var hún með bestu einkunn okkar á báðum endum vallarins, skv. HB Statz. Í markinu varði Írena Björk Ómarsdóttir vel, eða 10 skot (27.8%).

Næsti leikur stelpnanna okkar er á laugardaginn næsta, 6. febrúar, en þá koma Stjörnukonur í heimsókn. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!

Mörk FH: Emilía Ósk Steinarsdóttir 4, Andrea Valdimarsdóttir 3, Fanney Þóra Þórsdóttir 3, Ragnheiður Tómasdóttir 2, Freydís Jara Þórsdóttir 1, Britney Cots 1.
Varin skot: Írena Björk Ómarsdóttir 10 (27.8%)

Aðrar fréttir