Bikardraumur úti!

Bikardraumur úti!

Mikil meiðsli herja á FH-inga þessa dagana. Eins og áður hefur komið fram er Atli Viðar úr leik þetta tímabil og svo var Baldur einnig lítillega meiddur og gat ekki leikið. En byrjunarliðið var sem hér segir:

                               Daði

Gummi       Ármann         Tommy         Hermann

               Ásgeir         Davíð

                      Sigurvin

Atli                                                          Tryggvi

                         Matthías

Fyrri hálfleikur var bráðfjörugur og vel leikinn af beggja hálfu. Ásgeir kom FH-ingum yfir á 10. mínútu en Víkingar jöfnuðu á þeirri 26. og var þar að verki Höskuldur Eiríksson hægri bakvörður og fyrirliði.

Téður Höskuldur skoraði strax í upphafi seinni hálfleiks eftir hornspyrnu þegar hann var óvænt einn og óvaldaður á markteig og sendi boltann auðveldlega í netið. FH-ingar steinsofandi. Minnti á dekkninguna á Henry í Frakkland – Brasilía!

Það sem eftir var hálfleiksins reyndu FH-ingar að sækja og jafna leikinn en náðu ekki að skapa sér afgerandi færi. Víkingar voru duglegir að trufla ryþma leiksins með því að leggjast í grasið við hvert tækifæri og það fór eðlilega nokkuð í taugarnar á FH-ingum og það færðist nokkur hiti í leikinn.

Á 61. mínútu fór Ásgeir út af vegna meiðsla og Tómas Leifsson kom inn á í hans stað og við breyttum í 4-4-2. Tryggvi fór í senterinn, Atli á vinstri kant og Tommi á þann hægri. Við þessa breytingu færðist meira líf í sóknarleikinn og við virtumst líklegir. Næst komumst við sennilega þegar Ingvar Kale markvörður Víkinga varði stórkostlega aukaspyrnu Sigurvins Ólafssonar.

Þegar um 10 mínútur voru eftir var Ármann Smári færður í senterinn og við spiluðum bara með þrjá í vörninni. Eftir það dældum við bara háum boltum á Ármann sem vann allnokkra bolta sem hefðu getað skapað hættu en það vantaði að menn væru búnir að taka hlaupið í svæðið á bakvið hann.

Við náðum engum dauðafærum en Víkingar voru hættulegir í skyndisóknum sínum, sérstaklega hægra megin frá þeim séð þar sem Viktor Bjarki Arnarson var potturinn og pannan í spilinu.

Leikurinn fjaraði út og bikardraumur FH-inga breyttist í martröð á heimavelli þar sem við töpum helst ekki leik. Það má samt alveg segtja að Víkingar hafi átt sigurinn skilið, þeir börðust vel, lokuðu svæðum vel og voru hættulegir fram á við. Við supum hinsvegar seyðið af því að koma kærulausir til leiks í seinni hálfleik og ná aldrei upp sama hraða og í fyrri hálfleik sem var nokkuð góður.

Síðustu 10-15 mínúturnar vorum við að flýta okkur alltof mikið og dældum undantekningarlaust háum boltum fram á við frá okkar eigin vallarhelmingi, þegar við höfðum leikandi létt getað spilað okkur fram á við. Það vantaði algjörlega að láta boltann fljóta betur í vörninni frá vinstri til hægri. Ármann Smári þurfti að bjóða sig betur í boltann, draga sig dýpra þegar Tommy eða Hermann voru með hann því oft var mikið svæði hægra megin en við héldum alltaf áfram að troða boltanum upp pakkaðan vinstri kantinn.<br

Aðrar fréttir