Bikarinn í Krikann! | FH er deildarmeistari árið 2017

Við erum FH, og við erum deildarmeistarar árið 2017!

Að viðstöddum 1550 áhorfendum lönduðu strákarnir okkar sterkum sigri á öflugu liði Selfoss, og þar af leiðandi deildarmeistaratitlinum langþráða.

Svarthvítu hetjurnar okkar eru deildarmeistarar árið 2017!

Svarthvítu hetjurnar okkar eru deildarmeistarar árið 2017!

Líkt og búast mátti við létu Selfyssingar okkar menn vinna fyrir sigrinum. Sunnlendingar mættu ákveðnir til leiks, framliggjandi varnarleikur þeirra olli vandræðum lengi vel og þá voru tvær skyttur í liði Selfoss, Teitur Örn Einarsson og Elvar Örn Jónsson, að hitta afar vel úr sínum skotum. Greina mátti taugaspenning í liði FH, sem var svosem ekki skrítið, enda titill í húfi og Krikinn fullur af fólki. Sannkallaður úrslitaleikur um bikar, sem félagið hafði ekki landað í 25 ár þar til í gær.

Í raun má þakka Ágústi Elí Björgvinssyni fyrir það, að forysta Selfyssinga hafi ekki verið 3-4 mörk þegar liðin gengu til búningsherbergja. Ágúst varði vel allt frá upphafi, oft úr góðum færum. Svo fór á endanum að jafnt var þegar flautað var til hálfleiks, 12-12. Strákunum gafst því færi á, að núllstilla sig almennilega inni í klefa. Seinni hálfleikur yrði nýr leikur.

FH-liðið mætti vel til leiks í síðari hálfleik og náði forystunni í fyrsta sinn með fyrirliðamarki. Ásbjörn Friðriksson kom FH í 13-12, allt á réttri leið. Selfyssingar áttu víst eftir að komast yfir einu sinni enn, í stöðunni 13-14, en FH-ingar svöruðu með tveimur mörkum í röð. Selfyssingar jöfnuðu einu sinni enn, áður en að leikurinn snerist endanlega FH-ingum í vil.

Að lokum fór svo að strákarnir okkar lönduðu góðum 6 marka sigri á móti hörkuliði Selfoss, 28-22, og gátu þar af leiðandi fagnað vel í leikslok. Deildarmeistararnir árið 2017 koma úr svarthvítum hluta Hafnarfjarðar.

Ágúst Elí var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður vallarins í gærkvöldi, en hann varði 20 skot. Frábær leikur milli stanganna. Fyrirliðinn Ásbjörn fór fyrir okkar mönnum í markaskori, en hann skoraði 6 mörk. Þá skoraði Ágúst Birgisson 5 mörk af línunni, og var öflugur sem fyrr í miðju varnarinnar.

Strákarnir hafa átt frábæran vetur það sem af er. Í deildarkeppni þar sem að stöðugleiki telur meira en nokkru sinni fyrr, því allir geta unnið alla og stutt er á milli allra í töflunni, stóðu FH-ingar uppi sem sigurvegarar. Stöðugasta liðið yfir heilan vetur. Þessum bikar þarf að hafa mest fyrir af öllum, og það eru strákarnir okkar sem lönduðu honum. Það var ljóst að FH-liðið ætlaði sér meira en bara 5. sætið sem því var spáð fyrir tímabilið, og eftir því sem leið á veturinn kom betur í ljós hversu vel strákarnir voru í stakk búnir til að afreka eitthvað sérstakt.

Bara svona rétt aðeins að minna fólk á stöðuna.

Bara svona rétt aðeins að minna fólk á stöðuna. Lokastaðan í Olísdeild karla 2016/2017.

Deildarbikarinn kom í hús í desember. Liðin sem þar tóku þátt, tóku hann misalvarlega. En það að vinna, og að landa titlum, er ávani. Ávani sem að strákarnir vilja gjarnan hafa. Við fórum í undanúrslit í bikar, þar sem að liðið datt naumlega út gegn verðandi bikarmeisturum Vals. Strákarnir nýttu sér sárindin, og fóru alla leið í deildinni. Tveir titlar komnir í hús, og enn er sá stærsti í boði.

Á sunnudag, kl. 19:30, byrjar næsta verkefni. Átta liða úrslit í Íslandsmótinu, þar sem að Gróttan bíður okkar sem andstæðingur. Strákarnir eru langt frá því að vera saddir.

Enn og aftur, og af miklu stolti líkt og ávallt:
Við erum FH!
Deildarmeistarar 2017.

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 6/3, Ágúst Birgisson 5, Einar Rafn Eiðsson 4, Óðinn Þór Ríkharðsson 3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Arnar Freyr Ársælsson 3, Jóhann Birgir Ingvarsson 1, Jóhann Karl Reynisson 1, Þorgeir Björnsson 1, Ágúst Elí Björgvinsson 1.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 20.

Aðrar fréttir