Bílastæðamál í Kaplakrika.

Bílastæðamál í Kaplakrika.

Ágætu FH-ingar og gestir í Kaplakrika.

Að undanförnu hefur borið á því að gestir sem sækja Kaplakrika og hafa freistast til þess
að leggja bílum sínum á svæði sem ekki eru ætluð sem bílastæði hafi í einhverjum tilfellum
fengið sektarmiðamiða frá lögreglunni á framrúðuna hjá sér. Að sjálfsögðu á ekki að leggja
bílum þar sem það ekki má og vitaskuld á að fara eftir umferðarreglum í hvívetna.

Alla jafna eru næg bílastæði í og við Kaplakrika en þegar um stærri viðburði er að ræða
má færa fyrir því rök að það vanti pláss fyrir bíla. Eftir að hafa setið fund með lögreglu
höfuðborgarsvæðisins kom í ljós að hægt er að fjölga bílastæðum tímabundið með því að
leyfa bílaaðstöðu á nokkrum grassvæðum við Kaplakrika en til þess að svo megi vera þarf
leyfi frá yfirvöldum Hafnarfjarðarbæjar.

Við fórum fram á það við Hafnarfjarðarbæ að leyft væri að leggja bílum á einhver þessara
svæða en því hefur nú verið hafnað. Þetta einfalda erindi endaði inni hjá því sem heitir
skipulags- og byggingaráð sem hafnaði erindinu. Það eru því þeir fulltrúar sem þar sitja
sem ekki vilja leyfa Hafnfirðingum né gestum okkar að leggja á svæðum sem vel geta
nýst sem bílastæði þegar um stærri viðburði er að ræða. Það má finna inni á heimasíðu
Hafnarfjarðarbæjar hverjir það eru sem skipa þetta ágæta ráð.

Ég vil beina því til allra þeirra sem hug hafa á að heimsækja Kaplakrika að leggja bílum
sínum löglega. Einnig er ráð fyrir þá sem tök hafa á að koma hjólandi, gangandi eða taka
strætó. Umfram allt er gott að vera tímalega því þá gefst tími til þess að ganga lengri
vegalengd ef leggja þarf langt frá Krikanum.

Við að sjálfsögðu höldum áfram að koma í Krikann og látum ekki ákvarðanir sem þessa hafa
áhrif á okkur. Við FHingar höldum áfram að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að
þjónusta gesti okkar eins vel og við mögulega getum.

Sjáumst í Krikanum

FH kveðjur

Jón Rúnar Halldórsson

Formaður knattspyrnudeildar FH

Aðrar fréttir