Bjarni Fritz: Óli Gúst frumsýnir nýtt fagn!

Bjarni Fritz: Óli Gúst frumsýnir nýtt fagn!

FH.is heyrði hljóðið í hornarmanninum magnaða, Bjarna Fritzyni, en Bjarni hefur verið frábær á tímabilinu og ávallt með að minnsta kosti fimm mörk í leik. Bjarna líst vel á leikinn gegn Haukum á mánudag og hlakkar til að sjá Ólaf Gústavsson frumsýna nýja fagnið, en smelltu á fyrirsögnina til að lesa viðtalið í heild sinni.

Sæll Bjarni, fyrst af öllu: til hamingju með frábæran sigur gegn Akureyringum. Er þetta fullkomin byrjun á nýju ári, að þínu mati?
Bjarni: “Þakka þér. Þetta var hin fínasta byrjun.”

Nú er næsti leikur liðsins gegn erkifjöndum okkar í úthverfinu, sjálfum Haukum. Hvernig leggst sá leikur í þig?
Bjarni: “Bara vel, iðjulega vel mætt á þessa leiki og skapast oftar en ekki hin fínasta stemming.”

Hvað telur þú að sé hættulegast við leik Hauka? Hvað komið þið til með að gera til þess að brjóta það niður?
Bjarni: “Man nú ekki eftir neinu sérstaklega hættulegu í leik þeirra. Finnst þeir eiginlega vera með afskaplega óhættulegt lið.”

Hvað er það helsta sem FH-ingar geta nýtt sér gegn Haukunum?
Bjarni: “Við erum með betri skyttur-hornamenn-línumenn-miðjumenn-markmenn-varnarmenn-sóknarmenn og varamann en þeir, þannig vonandi nýtum við okkur það.”

Nú er búist við gríðarlegum fjölda á þennan leik, eins og á flest alla leiki þessara liða og þar verður vafalaust heitt í kolunum. Finnur þú fyrir meiri vilja og ákefð inni á vellinum í þessum leikjum?
Bjarni: “Já algjörlega það er ekkert betra en að spila í troðfullri höll með annan helminginn með sér og hinn á móti. Yndislegt.”

Einhver skilaboð til stuðningsmanna?
Bjarni: “Vonandi sjá flestir sér fært um að koma á leikinn. Svo þætti mér vænt um ef að áhorfendur mundu taka nokkrar bylgjur svona við og við. Að lokum vill ég benda öllum lesendum að Ólafur Gúst mun frumsýna nýtt fagn í næsta leik og væri gaman ef áhorfendur mundu styðja hann í því þar sem hann er búin að æfa það lengi og er dálítið stressaður fyrir frumsýninguna.”

Aðrar fréttir