Bjarni Fritzson gengur til liðs við FH

Bjarni Fritzson gengur til liðs við FH

Bjarni og Þorgeir formaður handsala samning í dagHandknattleiksdeild
FH og landsliðsmaðurinn Bjarni Fritzson hafa komist að samkomulagi um að Bjarni
leiki með FH það sem eftir lifir leiktíðar.

Bjarna Fritzson
þarf vart að kynna fyrir íslensku íþróttaáhugafólki.  Hann er uppalinn Breiðhyltingur, fæddur 1980
og er því 28 ára gamall.  Hann hóf að
leika með meistaraflokki ÍR 1997 aðeins 17 ára gamall og var sterkur hlekkur í
frábæru liði ÍR-inga uppúr aldamótum og var orðinn fyrirliði liðsins áður en
hann hélt í atvinnumennsku. Hann hefur ekki spilað með öðru liði hérlendis en
sumarið 2005 gekk hann til liðs við franska liðið
Creteil þar sem hann lék næstu 2 árin. Eftir það
gekk hann til liðs við St. Raphael, einnig í Frakklandi.  Þaðan fékk hann sig lausan nú í vikunni og
hefur ákveðið að ganga í raðir okkar FH-inga.

 

Það þarf ekki að
velkjast í vafa um það að Bjarni er mikill hvalreki fyrir hið unga lið FH og
verður liðinu mikill styrkur á seinni hluta tímabilsins.  FH-liðið hefur sýnt það til þessa að það er
til alls líklegt og koma Bjarna blæs mönnum byr í seglin í baráttunni sem
framundan er.

 

Við FH-ingar erum
ákaflega ánægðir að hafa náð samkomulagi við Bjarna og lítum á það sem mikla
viðurkenningu á okkar starfi að leikmaður á borð við hann skuli sjá hag sínum
best borgið í FH.  Hann hlakkar mikið til
að leika aftur í íslensku deildinni en stefnir að loknu móti á að fara aftur í
atvinnumennsku erlendis. Stærsta ástæða þess að Bjarni gengur til liðs við FH
er að liðið leikur hraðan og skemmtilegan handbolta og hefur á að skipa miklum
efnivið ungra leikmanna.


Elvar Erlingsson
þjálfari er himinlifandi með þessa viðbót í liðið.  Þarna sé á ferð örvhentur leikmaður í hæsta
gæðaflokki sem leikið getur í horni sem og skyttu en það er kannski það sem
FH-liðið hefur vantað helst í vetur.  Þá
sé Bjarni gríðarlega reyndur leikmaður þó aldurinn sé ekki hærri en þetta og
drengur góður. Hann ætti því að falla vel inn í hópinn.

 

Fyrsti leikur
Bjarna með FH verður gegn Fram í N1 deildinni, fimmtudaginn 22. janúar n.k.

Aðrar fréttir