Bjarni kveður FH

Bjarni kveður FH

Bjarni Fritzson hefur sagt skilið við okkur FHinga og ákveðið að leika
fyrir norðanmenn á Akureyri á næsta tímabili. Bjarni hefur verið að
hugsa sinn gang frá því að tímabilið endaði í vetur og hafði úr mörgum
möguleikum að velja, m.a. að halda áfram að spila fyrir FH.

Það er auðvitað svipur hjá sjón að missa Bjarna úr FH enda drengurinn markahæsti leikmaður deildarinnar síðasta vetur og var valinn í lið ársins í lok móts.

Bjarni hafði þetta að segja um flutning sinn norður við visir.is:

„Ég flyt norður með alla fjölskylduna, það verður að taka þetta alla
leið. Það heillar mig mjög mikið og ég hef alltaf haft áhuga á að búa
utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta gerðist ekki á einum degi en var á
endanum ekki erfið ákvörðun. Það er fínt að prófa þetta áður en
strákurinn minn byrjar í grunnskóla og svona,” sagði Bjarni sem hafði
úr fleiri tilboðum að velja.

Nokkur lið úr N1-deildinni vildu fá
Bjarna til sín sem og lið í Danmörku. „Á endanum var þetta bara val á
milli FH og Akureyrar. Það eru fjölmargar ástæður fyrir því að ég valdi
Akureyri og þetta verður skemmtileg tilbreyting. Það er gaman að prófa
eitthvað nýtt, maður þroskast við að breyta um aðstæður,” segir Bjarni.

„Síðasti
vetur í Reykjavík var mjög erfiður hjá mér, það var mikið að gera á
öllum vígstöðum. Ég var í krefjandi námi en ég tel að með þessum
flutningi geti ég einfaldað lífsmunstrið og því sinnt þeim hlutum sem
skipta mestu máli enn betur. Ég gæti alveg spilað hérna fyrir sunnan í
hálfkæringi en mér finnst betra að geta einbeitt mér alveg að fullu og
tekið þetta alla leið. Lífið verður einfaldara og þægilegra og ég kem
kannski frekar suður í frí,” sagði Bjarni.

Honum líst vel á
liðið hjá Akureyri og ekki síst umgjörðina. „Hún er best þarna, og
reyndar hjá FH. Það er svo gaman að spila fyrir fullu húsi í hverri
umferð. Það eru ungir og sprækir strákar í liðinu í bland við einhverja
jaxla,” sagði Bjarni. Atli Hilmarsson mun þjálfa liðið.

Bjarna
var einnig boðið að fara til Danmerkur en segir það ekki spennandi
kost. „Landslagið úti er ansi erfitt og samningarnir lélegir og
óspennandi, í það minnsta fyrir mig. Ég er ekki að rífa mig frá því sem
ég hef hérna heima fyrir eitthvað drasl,” sagði Bjarni Fritzson.”

FH.is þakkar Bjarna fyrir hans frábæra framlag í þágu FH og óskar honum góðs gengis fyrir norðan.

Aðrar fréttir