Blásið til sóknar – Skyggnst inn í veturinn

Blásið til sóknar – Skyggnst inn í veturinn

Saga handknattleiks í FH er stórbrotin saga glæsts árangurs.  Saga glæsilegra afreksmanna.  Saga afreka og aðdáunar.  Saga sem hvaða lið sem er væri stolt af.  En það er ekkert sjálfgefið í þessum efnum og því hefur FH kynnst allharkalega.  Handknattleiksdeild FH hefur á undanförnum árum gengið í gegnum ýmsar þrengingar sem hamlað hafa starfi og framþróun deildarinnar.  Er þar fyrst og fremst um að kenna afar erfiðri skuldastöðu auk þess sem árangur meistaraflokka félagsins hefur ekki verið sem skyldi og náði nýjum lægðum með falli karlaliðsins í 2. deild fyrir 2 árum.

 

En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott var einhvern tímann sagt og þetta varð til þess að menn innan félagsins settust niður og sögðu hingað og ekki lengra.  Í gang fór allsherjar naflaskoðun, bæði á leikmannamálum karla og kvenna og eins á innra starfi og stjórnun deildarinnar.

Þessi tveggja ára fjarvera karlaliðsins frá keppni þeirra bestu hefur verið notuð til að byggja upp nýtt og bráðefnilegt lið sem byggt er upp af ungum drengjum sem aldir eru upp hjá félaginu.  Flestir þeirra eru unglingalandsliðsmenn og afar efnilegir.  Þeim til halds og trausts eru svo eldri og reyndari leikmenn, FH-ingar sem komnir eru að nýju til félagsins til að taka þátt í spennandi uppbyggingu og ljúka ferlinum á heimaslóðum.

 

Að sama skapi er kvennalið FH einnig byggt upp af uppöldum, ungum stúlkum sem margar hverjar eru í yngri landsliðum og félagið væntir mikils af.

 

FH hefur á að skipa afar færum þjálfurum fyrir þessi lið, þeim Guðmundi Karlssyni og Elvari Erlingssyni.  Báðir afar metnaðarfullir fyrir hönd félagsins og samstíga í því að horfa til framtíðar varðandi uppbyggingu liðanna.  Slíkt er ómetanlegt og mun skila sér á næstu árum.

 

Núverandi stjórn Handknattleiksdeildar FH er stórhuga og hefur tekið allt starf deildarinnar til endurskoðunar með það að markmiði að gera það skilvirkara og sýnilegra.  Það hefur verið fækkað í stjórn sem í dag er skipuð aðeins 5 mönnum í stað 11 áður.  Á móti hafa verið stofnuð nokkur svokölluð vinnuráð sem skipuð eru 3-5 mönnum hvert og bera ábyrgð á afmörkuðum hlutum starfseminnar.  Um er að ræða fjármálaráð, sem sér um fjáraflanir, samskipti við lánadrottna o.þ.h., kynningarmálaráð, sem sér um öll mál er snúa að ímynd deildarinnar, samskipti við fjölmiðla, útgáfumál o.fl., leikjaráð sem stjórnar öllu er lýtur að umgjörð leikja, meistaraflokksráð karla og kvenna, en það mun sjá um að halda utanum leikmenn liðanna, aðbúnað þeirra og samskipti við stjórn.  Með þessu fyrirkomulagi eru fleiri sem koma að rekstri og stjórn deildarinnar og ábyrgð dreift á fleiri hendur.  Vinna þessara ráða er komin í fullan gang og hefur sumarið verið notað til fundahalda og hugmyndavinnu varðandi allt það er að ráðunum snýr.  T.d. verður umgjörð leikja í Krikanum stórbætt og vonandi sjást merki um það strax í fyrstu leikjum liðanna.  Þá hefur kynningarmálaráð þegar lokið sínu fyrsta verkefni sem var að láta taka „alvöru“ myndir af leikmönnum meistaraflokkanna, myndir teknar af fagmönnum og er óhætt að segja að mjög vel hafi tekist til.

Aðrar fréttir