Dani Hatakka gengur til liðs við Fimleikafélagið

Hinn 28 ára gamli Dani Hatakka hefur gert samning við FH sem gildir út keppnistímabilið 2023. Miðvörðurinn spilaði i fyrra með Keflavík og hefur einnig á sínum ferli spilað með Brann i Noregi og SJK Seinäjoki og FC Honka í heimalandi sínu Finnlandi. Við FH-ingar bjóðum Dani hjartanlega velkominn til félagsins og erum þess fullvissir að hann muni reynast okkur vel á komandi tímabili.

 

Ég er svo ánægður að fá tækifæri hjá eins stóru félagi og FH

FH Media sló á þráðinn til Finnlands og fékk Dani til að svara nokkrum vel völdum spurningum varðandi félagsskiptin.

„Tilfinningin að skrifa undir hjá FH er mjög góð. Það er mikil tilhlökkun fyrir næstu leiktíð og ég er svo ánægður að fá tækifæri hjá eins stóru félagi og FH. Þetta er snemmbúin jólagjöf.“

„Minn fyrsti leikur á síðustu leiktíð var á móti FH. Ég spilaði þá æfingaleik með Keflavík og ég var mjög hrifinn af aðstöðunni. Þetta er besta aðstaða á Íslandi.“

„Síðasta leiktíð var erfið fyrir FH og þeir vilja komast aftur á þann stað sem þeir eiga heima. Það verður ekki auðvelt og mun krefjast mikillar vinnu.“

Dani er staðráðinn að Fimleikafélagið eigi eftir að gera betur næsta tímabil, eftir dapurt gengi í ár. „Eftir að hafa talað við Heimi og Davíð þá er ég viss um að grunnurinn er til staðar og núna þurfum við að vinna vinnuna. Ég er viss um að við munum gera mun betur en á síðustu leiktíð en það kemur ekki að sjálfu sér.“

Við spurðum hann hverju stuðningsmenn FH ættu von á og svaraði hann; „Stuðningsmenn FH geta búist við öflugum varnarmanni sem skorar vonandi nokkur mörk. Ég mun leggja mitt að mörkum fyrir liðið svo við náum þeim úrslitum sem við viljum. Ég veit að ég verð einn af þeim eldri í liðinu svo ég verð að taka leiðtogahlutverk og nýta þá reynslu sem ég hef, til þess að hjálpa þeim sem yngri eru.“

„Sjáumst í Kaplakrika!“

FH Media fékk einnig nokkur komment frá yfirmanni knattspyrnumála, Davíð Þór Viðarssyni;

“Við erum mjög ánægðir með að ná að landa Dani. Hann er fyrst og fremst góður varnarmaður, agressívur og les leikinn vel, líður vel á boltanum og er leiðtogi. Hann þekkir deildina eftir að hafa spilað í Keflavík á síðasta tímabili. Við þurfum að bæta varnarleik okkar frá því í fyrra og erum vissir um það að Dani geti hjálpað okkur við það.”

Aðrar fréttir