Norðurlandameistarar maí 2024

Daníel Ingi Norðurlandameistari á nýju Íslandsmeti

Góður árangur náðist hjá okkar fólki á NM sem fram fór í Malmö um helgina.

Daníel Ingi Egilsson varð Norðurlandameistari í langstökki á nýju glæsilegu Íslandsmeti 8,21 m. þar sem hann bætti gamla metið um 21 cm. Hann hafði bætt metið í fyrra stökki sem var 8,01 m. Þetta stökk Daníels gefur möguleika á Ólympíusæti í París í sumar, en þetta er 12. besti árangur ársins. Sjá má stökkið (fengið hjá FRÍ) hér.

Aníta Hinriksdóttir varð Norðurlandameistari í 1500 m hlaupi á 4:19,14 mín og lenti í öðru sæti í 800 m hlaupi á tímanum 2:05,42 og var einungis 0.22 sek á eftir sigurvegaranum. Er þetta besti árangur Anítu á þessu tímabili í báðum hlaupum.

Birta María Haraldsdóttir varð í öðru sæti í hástökki með 1,87 m og er nú einungis 1 cm frá Íslandsmetinu sem orðið er 34 ára gamalt, en hún gerði góða tilraun við nýtt met. Sjá stökk Birtu (fengið hjá FRÍ) hér.

Sindri Hrafn Guðmundsson varð í öðru sæti í spjótkasti með kast upp á 78,82 m.

Hilmir Örn Jónsson varð fjórði í sleggjukasti með kast upp á 75,10 m sem er hans besti árangur á þessu tímabili.

Kolbeinn Höður Gunnarsson hljóp tvívegis undir Íslandsmetinu í 100 m, en því miður var vindur aðeins of mikill. Hann varð fimmti á tímanum 10,45 sek (+3,4). Hann náði jafnframt sínum besta árangri í 200 m í B-úrslitum þegar hann hljóp á 21,59 sek.

Myndir. Hlín Guðmundsdóttir

 

 

Aðrar fréttir