
Daníel Ingi Norðurlandameistari og Kolbeinn og Hilmar Örn með silfur
Daníel Ingi Egilsson varð í dag Norðurlandameistari í þrístökki þegar hann stórbætti árangur sinn og stökk 15,98 m.
Kolbeinn Höður Gunnarsson er í stórkostlegu formi og hljóp á 10,29 sek og hlaut silfur í 100m hlaupi karla. Tíminn var vel undir Íslandsmeti Ara Braga Kárasonar sem er 10,51 sek en vindurinn rétt yfir leyfilegum mörkum.
Hilmar Örn Jónsson fékk silfur í sleggjukasti karla. Hilmar kastaði 73,28 metra, einungis níu sentímetrum frá fyrsta sætinu.