Daníel markvörður fyrir Valsleik

Daníel markvörður fyrir Valsleik

Sá stórefnilegi markmaður Daníel Andrésson situr fyrir svörum fyrir stórleik FH-inga gegn toppliði Vals í N1-deild karla í kvöld.

Daníel hefur á köflum varið eins og berserkur í FH-markinu í vetur og myndar sterkt markvarðapar með Magnúsi Sigmundssyni.

Við byrjuðum á að spyrja Danna hvort menn séu búnir að koma sér niður á jörðina eftir sigur á Haukum í 8-liða úrslitum Eimskipabikarsins á sunnudaginn. „Já, menn eru svona að komast niður á jörðina,“ sagði Danni sem hefur eflaust snert nokkur ský eftir hádramatískan sigur gegn Haukum.

En verður ekkert erfitt að gíra sig upp í leikinn gegn ógnarsterku Valsliði?
„Nei ég held ekki, Valur er með sterkt lið og voru góðir á móti Fram á mánudaginn. Við verðum að vinna leikinn til að komast í deildarbikarinn svo ég held að menn mæti alveg tilbúnir í þennan leik. Okkur gekk líka vel eftir síðasta leik móti Haukum því þá unnum við Akueryri í bikarnum svo ég er bara bjartsýnn.“

 En hvað með þína frammistöðu í vetur, ertu sáttur við eigin leik?
„Svona heilt yfir er ég bara nokkuð sáttur, ég er ekki búinn að vera alveg nógu stabíll kannski en þetta er bara búið að ganga ágætlega,“ sagði Danni sem verður vonandi stabíll í kvöld.

Nú spilar Maggi Sigmunds í markinu á móti þér og er hann gífurlega reynslumikill. Er hann ekki að kenna þér helling á milli stanganna?
„Jújú, maður er alltaf að læra eitthvað nýtt og Maggi veit ýmislegt enda búinn að vera lengi í þessu.“

Eftir nokkurn tíma í næstefstu deild er FH aftur komið á meðal þeirra bestu og við spurðum Danna hversu mikill munur sé á deildunum?
„Það er töluverður munur sko, kannski minni samt fyrir mig en útispilarana. N1 deildin er mun erfiðari líkamlega og hraðari auk þess sem núna er erfiður leikur í hverri umferð.“

Hver eru framtíðarmarkmið Danna í handboltanum?
„Að stimpla sig almennilega inn í liðið og deildina, síðan sér maður hvernig framhaldið verður,“ sagði Danni sem hvetur einnig alla FH-inga til að mæta á Hlíðarenda í kvöld að hvetja liðið í baráttunni um að komast í deildarbikarinn.

Aðrar fréttir