,,Dugnaður sigrar hæfileika, nema…” | FH 41 – 29 Fjölnir

Í bókinni Íþróttaklisjur og frasar er eftirfarandi setning og hún lýsir þessum leik ágætlega: „Dugnaður sigrar hæfileika, nema hæfileikarnir séu duglegir.“ Á meðan Fjölnismenn höfðu trú á verkefninu, á meðan FH-ingar voru ekki alveg komnir í gang, þá hótaði þetta að verða hörkuleikur. Fjölnismenn komust tveimur mörkum yfir í upphafi leiks og baráttugleðin skein af þeim. Leikmenn beggja liða flugu af velli um miðjan hálfleikinn og Fjölnir virtist vera að leysa varnarleik FH betur en margir hafa gert. En hægt og rólega náðu FH-ingar tökum á leiknum, náðu forystu um miðbik fyrri hálfleiks og bættu hægt og bítandi í hana. 

Einar Rafn átti afar góðan leik á miðvikudagskvöld og var markahæstur í liði FH / Mynd: Jói Long

Þegar mínúta var eftir að fyrri hálfleik minnkaði Kristján Örn Kristjánsson muninn í þrjú mörk og í kjölfarið varði Ingvar Kristinn í marki Fjölnis mjög vel. Það var smá tilfinning að Fjölnir færu inn í hálfleik með byrinn sín megin. Það varð hinsvegar engin spenna í seinni hálfleik, né heldur einhverjir rosalegir kaflar hjá FH. Heimamenn settu einfaldlega í einum hærri gír en Fjölnir réð við, Gísli Þorgeir komst í ham í sókninni og eitt mark í einu juku strákarnir forystuna. Þegar flautan gall var heimaliðið með 41 mark á töflunni og þriggja stiga forystu á toppi deildarinnar.

Það voru margir góðir hjá FH í kvöld og það var ekki að sjá að EHF sirkusinn sé að hafa áhrif á menn. Í raun er frábært að sjá hversu alvarlega strákarnir taka hverjum einasta leik. Með fullri virðingu fyrir Fjölnismönnum, sem gáfust aldrei upp þó leikurinn væri tapaður, þá hefði verið auðvelt fyrir leikmenn FH að líta á töfluna og koma rólegir inn í leikinn. Það hefði verðir stórhættulegt á móti þessu liði. Einar Rafn setti 9 mörk, Gísli Þorgeir 8 og Ási 7 (fimm úr vítum) og þeir báru upp sóknarleikinn en mig langar að minnast sérstaklega á Jón Bjarna Ólafsson. Hann kom frábærlega inn í vörnina fyrir Ágúst og leysti sóknina vel þó ekki hafi komið fleiri mörk. Ef hann heldur svona áfram verður mjög spennandi að sjá framhaldið hjá honum. Síðast en ekki síst hélt Ágúst Elí upp á landsleikinn með því að klukka 15 bolta. 

Jón Bjarni átti góða innkomu í lið FH / Mynd: Jói Long

FH var að skora 40 mörk í annað sinn í vetur og liðið var að skora meira en 30 í fimmta sinn í sjö leikjum. Sóknarleikur liðsins er einfaldlega sá besti á landinu og unaður fyrir augað. Varnarleikur liðsins er reyndar ekki sá flottasti, alveg heil þrjú lið búin að fá á sig færri mörk. Eitt þeirra er einmitt að koma í heimsókn á mánudaginn, ÍR-ingar. Meiri upphitun um þann leik um helgina, sjáumst þar. 

Við erum FH!

-Ingimar Bjarni

Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 9, Gísli Þorgeir Kristjánsson 8, Ásbjörn Friðriksson 7/5, Óðinn Þór Ríkharðsson 5, Ágúst Birgisson 4, Arnar Freyr Ársælsson 4, Ágúst Elí Björgvinsson 1, Þorgeir Björnsson 1, Jón Bjarni Ólafsson 1, Ísak Rafnsson 1.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 15/1, Birkir Fannar Bragason 2.

Aðrar fréttir