Einar Andri þjálfar FH næstu 3 ár

Einar Andri þjálfar FH næstu 3 ár

Eftir að hafa komist að samkomulagi um starfslok við Elvar Erlingsson, sem þjálfað hefur meistaraflokk karla hjá FH undanfarin tvö ár ásamt Sigursteini Arndal, hefur handknattleiksdeild FH gengið frá samningum við Einar Andra Einarsson um að hann taki að sér að stýra þjálfun liðsins næstu þrjú árin. Honum til aðstoðar verða Bergsveinn Bergsveinsson, markmannsþjálfari, og Hreiðar Gíslason, íþróttafræðingur, sem séð hefur um líkamsþjálfun liðsins undanfarin tvö ár. Viðræður við aðstoðarþjálfara eru langt komnar.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Einar Andri komið víða við í þjálfun. Hann þjálfaði lengi í yngri flokkum fjölmarga af þeim ungu leikmönnum sem spilað hafa stórt hlutverk í FH-liðinu síðustu tvö ár, og náði með þeim afar góðum árangri, jafnt innanlands sem utan. Hann þjálfaði meistaraflokk karla hjá FH í 1. deild ásamt Arnari Geirssyni tímabilið 2006-7 og er þjálfari U-17 og U-19 ára landsliða karla. Undanfarin tvö ár hefur hann sinnt starfi framkvæmdastjóra handknattleiksdeildar FH og verið yfirþjálfari yngri flokka hjá félaginu.

Bergsveinn Bergsveinsson er einn af bestu markmönnum sem Ísland hefur átt, var lengi landsliðsmarkvörður og hefur unnið marga titla bæði með FH og Aftureldingu. Eftir að hann lagði skóna á hilluna hefur hann skapað sér gott orð sem markmannsþjálfari. Hann var aðstoðarlandsliðsþjálfari með Viggó Sigurðssyni og hefur unnið mikið með yngri markmönnum hjá FH undanfarin ár.

Hreiðar Gíslason er íþróttafræðingur sem unnið hefur markvisst að líkamlegri uppbyggingu hins unga liðs FH með mjög góðum árangri. Hans hlutverk verður enn viðameira en áður með einstaklingsmiðaða líkamsþjálfun áfram að leiðarljósi.

 

 

Aðrar fréttir