Ekkert vesen á Nesinu

Strákarnir okkar hefja nýja árið með góðu móti, en þeir sóttu í gærkvöldi tvö stig út á Seltjarnarnes frá botnliði Gróttu. Lokaniðurstaðan var 7 marka sigur okkar stráka í leik sem þeir leiddu nokkurn veginn frá fyrstu mínútu.

Fyrstu þrjú mörk gærkvöldsins voru FH-inga, og virtist verkefnið ætla að verða nokkuð þægilegt fyrir okkar menn. Ekki hjálpaði það heimamönnum, að eftir einungis þriggja mínútuna leik höfðu þeir misst út af leikmann með rautt spjald. Var þar um að ræða hægri skyttuna Arnar Jón Agnarsson, fyrrum leikmann FH, sem braut illa á Jakobi Martin Ásgeirssyni í hraðaupphlaupi.

Það var hins vegar ekki svo að heimamenn í Gróttu hefðu lagt árar í bát. Aðeins dróg af okkar mönnum eftir góða byrjun, og gengu Seltirningar á lagið. Um miðbik fyrri hálfleiks náðu þeir að jafna metin í 5-5, og var næstu 10 mínútur leiksins jafnt á öllum tölum. Það var ekki fyrr en síðustu 5 mínútur hálfleiksins sem að FH-liðið náði að slíta sig almennilega frá gestgjöfunum, en þeir skoruðu þá 6 mörk gegn 2 mörkum Gróttumanna og fóru fyrir vikið inn í hálfleikspásu með fjögurra marka forskot. Staðan í hálfleik var 11-15, FH í vil.

Óviðjafnanlegur, og þá sérrstaklega í fyrri hálfleik / Mynd: Jói Long

FH-ingar mættu öflugir til leiks í síðari hálfleik. Þeir skoruðu fyrstu þrjú mörk hans og komu sér þannig í 7 marka forskot, 11-18. Síðar varð munurinn 12-20, og eftir það var eiginlega aldrei spurning hvernig leikar myndu fara. Gróttumenn gerðu að vísu vel í því að minnka muninn aftur niður í 4 mörk, en nær komust þeir ekki. Aftur tóku FH-ingar kipp, og lauk leikum eins og áður sagði með 7 marka mun. Lokatölur voru 20-27, FH í vil.

Að öðrum ólöstuðum var Ásbjörn Friðriksson yfirburðarmaður á vellinum í gærkvöldi, en hann var með 12 mörk í leiknum og þar af 10 mörk í fyrri hálfleik. Sýndi hann þar gæði sín að venju. Næstur á eftir honum í markaskorun kom Jakob Martin, sem lék lengst af í horninu í fjarveru Arnars Freys, sem er meiddur. Jakob skoraði úr öllum fjórum skotum sínum. Kristófer Fannar Guðmundsson stóð í rammanum allan leikinn og varði vel, eða alls 10 skot.

Allt í allt var verkefnið vel leyst af hendi af hálfu FH-liðsins. Ekki síst í ljósi þess, hve margir lykilmenn eru á meiðslalistanum. Strákarnir sem í stað þeirra komu gerðu vel, og var það gott að sjá – ekki síst þegar horft er til þess, að það styttist óðum í úrslitakeppni, og þar skiptir breiddin öllu máli.

Með sigrinum komust strákarnir í 3. sæti deildarinnar, en þeir eru nú einu stigi á eftir Haukum og tveimur stigum á eftir toppliði Vals. Næsti leikur þeirra er næstkomandi sunnudag, en þeir halda þá í Mýrina og leika gegn Stjörnunni. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!

– Árni Freyr

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 12/5, Jakob Martin Ásgeirsson 4, Ágúst Birgisson 3, Jóhann Birgir Ingvarsson 3, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 3, Leonharð Þorgeir Harðarson 2.
Varin skot: Kristófer Fannar Guðmundsson 10 (33%).

Aðrar fréttir