Ekki alltaf dans á rósum | Tap í toppslagnum gegn Selfossi

Þetta var bara ekki okkar leikur. Selfyssingar fóru með sigur af hólmi úr stórleik gærkvöldsins. Lokatölur 22-25 Selfyssingum í vil, en þær leiddu leikinn allt frá upphafi og unnu verðskuldað. Þrátt fyrir það eru okkar stelpur enn með örlögin í höndum sér, en þær eiga stig til góða á Selfyssinga þegar 3 leikir eru eftir.

Það var einhvern veginn ljóst frá byrjun, að þetta yrði erfitt. Helstu skyttur gestanna, Hulda Dís Þrastardóttir og Katla María Magnúsdóttir, léku lausum hala á sama tíma og FH-liðið mátti hafa mikið fyrir sínum mörkum. Það virtist stundum vanta upp á ákefð í að skjóta á markið, sérstaklega í fyrri hálfleik, á meðan óvenju margir boltar glopruðust með klaufalegum hætti.

Staðan í hálfleik var 11-14, Selfossi í vil. Stelpurnar okkar mættu sterkari til leiks í síðari hálfleik, og náðu oftar en einu sinni að minnka muninn niður í eitt mark, en komust því miður aldrei yfir þann þröskuld að jafna leikinn og taka völdin. Þegar sá möguleiki kom upp virtist eitthvað klikka, sem síðan leiddi til marks í bakið. Þannig vinnast ekki svona leikir.

Fanney Þóra átti ágætis leik í gær, og skoraði 7 mörk / Mynd: Brynja T.

Á endanum sigldu Selfyssingar þessu heim og unnu þriggja marka sigur, 22-25. Lítið er hægt að kvarta yfir því, enda var Selfoss betra liðið á vellinum í gærkvöldi. FH-liðið náði því miður ekki að sýna sínar bestu hliðar að þessu sinni.

Markahæst FH-inga að þessu sinni var Fanney Þóra Þórsdóttir, en hún skoraði 7 mörk. Þá voru þær Britney Cots og Emilía Ósk Steinarsdóttir með 5 mörk hver. Í markinu varði Dröfn Haraldsdóttir 11 skot, þar af 10 í síðari hálfleik.

Áfram gakk. Rífum okkur upp að nýju, og siglum heim þessu Olísdeildarsæti. Þrír leikir eru til stefnu. Við eigum ÍBV U í Eyjum í næsta leik, sem fram fer 15. mars næstkomandi, og þar verður að vinnast sigur á erfiðum útivelli. Þar á eftir er heimaleikur gegn Gróttunni, sem hlýtur að flokkast sem algjör skyldumæting. Við eigum erfiða leiki framundan, en það sama má segja um Selfoss. Ef við spilum eins og við spilum best, þá förum við upp. Einfalt mál, í mínum huga.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Mörk FH: Fanney Þóra Þórsdóttir 7, Britney Cots 5, Emilía Ósk Steinarsdóttir 5, Ragnheiður Tómasdóttir 3, Aníta Theodórsdóttir 2.
Varin skot: Dröfn Haraldsdóttir 11 (36%), Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 1 (17%).

Leikurinn var í beinni útsendingu á YouTube, og má nálgast hann með því að smella á eftirfarandi hlekk:
https://youtu.be/2-fiHpDbVNI

Aðrar fréttir