Ekki nægur hraði

Ekki nægur hraði

Á sumardaginn fyrsta bryddaði Frjálsíþróttadeild F.H. upp á þeirri nýbreytni að halda kosningahlaup fyrir frambjóðendur í komandi bæjarstjórnarkosningum. Markmið okkar var að gefa stjórnmálamönnunum smá sýnishorn af því hvað við frjálsíþróttamenn í bæjarfélaginu erum að sýsla og jafnframt að gefa þeim kost á að nálgast bæjarbúa.

Miðað við áhuga frambjóðenda þurfa íþróttafélög í bæjarfélaginu ekki að kvíða úrslita kosninganna hvernig sem fer. Hugmyndin var sú að hver stjórnmálaflokkur sendi þrjá af fyrstu sex til keppninnar, þó var það ekki nægilega skýrt þannig að það mættu frambjóðendur mun aftar á listum flokkanna. Þar sem engin formleg kæra barst verða úrslit látin standa.

Stuttu eftir hlaupið hitti ég einn frambjóðandann sem þátt tók í keppninni á gangi og bar hann sig illa eftir hlaupið og tjáði hann mér að hann hefði tognað í hamstring í átökunum. Ekki urðu fleiri eftirþankar með það þar til að við hjónin sátum í eldhúsinu og vorum að ræða íþróttamál og tjáði ég henni raunir frambjóðandans. Kona mín sem er íþróttafræðingur og frjálsíþróttaþjálfari í fremstu röð sagðist ekki geta skilið hvernig á þessu gæti staðið, taldi hún að frambjóðandinn hefði alls ekki nægilegan hraða til þess að geta tognað!

Kveðja

Eggert Bogason

Aðrar fréttir