Ellefu marka stórsigur á Aftureldingu

Ellefu marka stórsigur á Aftureldingu

FH-ingar sýndu mátt sinn og megin í kvöld er þeir unnu þægilegan sigur á liði Aftureldingar, 34-23, í leik sem þeir stjórnuðu frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Fyrirfram hafði verið búist við erfiðum leik; Afturelding hafði verið á ágætis skriði í deildinni og hafði m.a.s. unnið Fram og Hauka í umferðunum á undan. En það var ljóst frá fyrstu mínútu í leik kvöldsins að sigurhrina þeirra var á enda – FH-ingar mættu gríðarlega vel stemmdir til leiks og ætluðu sér greinilega ekki að gefa Mosfellingum neitt.

Frá fyrstu mínútu var augljóst í hvað stefndi. Einbeitingin skein úr andlitum FH-inga, sem höfðu fyrir leikinn unnið tvo erfiða leiki í röð og höfðu verið að spila vel í þeim leikjum. Sóknartilburðir Mosfellinga voru vægast sagt lítilfjörlegir, en þá einna helst vegna þess þétta varnarmúrs sem FH-ingar mynduðu. Á 20 mínútum skoruðu Mosfellingar einungis 3 mörk gegn 10 mörkum FH-inga, en munurinn hefði getað verið meiri. Hann var það þó ekki vegna þess að Afturelding lék góðan varnarleik og fengu FH-ingar lítið af auðveldum mörkum. Sýnir enn fremur fram á hversu vel FH-ingar spiluðu á þessum tímapunkti.

Í hálfleik var staðan 17-7, FH í vil. Algjör einstefna í Krikanum, FH-ingar höfðu með frábærum varnarleik og góðum sóknarleik náð að klára leikinn strax í fyrri hálfleik. Mosfellingar, bæði innan og utan vallar, virkuðu vægast sagt vondaufir og voru fjölmargir stuðningsmenn Aftureldingar haldnir heim á leið í hálfleik.

Lið Aftureldingar virkaði aðeins ákveðnara í byrjun seinni hálfleiks, eins og búast mátti við, enda þurftu þeir á öflugum leik í seinni hálfleik að halda til að bjarga andlitinu og sannkallaðan stórleik til þess að vinna sigur. Mosfellingar skoruðu 4 mörk á fyrstu fimm mínútum seinni hálfleiksins gegn tveimur mörkum FH-inga og löguðu stöðuna í 19-11. Þessi byrjun virtist gefa Aftureldingu ágætis byr í seglin og náðu þeir um tíma að halda FH-ingum niðri. Mest náðu þeir muninum niður í 7 mörk þegar um það bil 10 mínútur voru eftir af leiknum. Ágætis bæting en langt frá því að vera nóg til þess að skáka öflugu FH-liði.

En þá gáfu FH-ingar í á ný. Síðustu 10 mínútur leiksins voru eign FH-inga, vörnin lokaði vel á Mosfellinga og munurinn á liðunum fór upp í 11 mörk. Leiknum lauk svo með 11 marka sigri FH-inga, 34-23. Verðskuldaður og jafnframt mikilvægur sigur FH-inga á liði sem hafði verið líklegt fyrir leik til þess að stríða þeim.

Það leikur lítill vafi á því að öflugur varnarleikur skilaði FH-ingum sigri í kvöld. Mosfellingar virkuðu ráðalausir gegn FH-vörninni og þau örfáu skot sem náðu yfir varnarmúr FH-inga höfnuðu í höndunum á Daníel Andréssyni, markverði FH, sem átti virkilega góðan fyrri hálfleik. Þá nýttu FH-ingar sér vel þessa góðu vörn og skoruðu mikið á lið Aftureldingar úr hraðaupphlaupum. Þegar á heildina er litið var þetta virkilega góð frammistaða liðsheildarinnar sem skilaði að lokum stórsigri á Aftureldingu.

Markahæstur FH-inga í kvöld var Ásbjörn Friðriksson sem fyrr, en hann skoraði 9 mörk og átti stórfínan leik í sóknarleik FH-liðsins. Ólafur Guðmundsson átti einnig góðan leik, en hann skoraði 6 mörk.

Önnur úrslit í deildinni voru FH-ingum virkilega hagstæð. Framarar töpuðu stórt á móti Val og Haukar unnu HK, sem þýðir að FH-ingar eru nú með fjögurra stiga forskot á lið Fram og Hauka sem sitja í 3-4. sæti deildarinnar. Þar að auki gerðu Akureyringar jafntefli gegn Selfossi, sem þýðir að tölfræðilega séð eiga FH-ingar möguleika á deildarmeistaratitlinum –

Aðrar fréttir