Enginn neisti

Enginn neisti

Arnar Gunnlaugsson náði forystunni fyrir FH á lokamínútu fyrri hálfleiks með umdeildu marki en svo virtist sem Atli Viðar Björnsson hafi potað boltanum úr greipum Fjalars markvarðar Fylkis í aðdraganda marksins. FH-ingar voru sterkari í fyrri hálfleik án þess þó að skapa sér teljandi tækifæri utan að Tryggvi Guðmundsson átti skot í þverslánna eftir hornspyrnu.

Fylkismenn virtust ekki líklegir til að skora en FH-ingar hleyptu þeim inn í leikinn í upphafi síðari hálfleiks með gjafamarki sem Kjartan Baldvinsson skoraði reyndar á laglegan hátt. Fylkismenn tvíefldust við markið og börðust grimmilega. Sóknarleikur FH var eins og í undanförnum leikjum alltof hægur, leikmenn eru of staðir og taka of margar snertingar. Alltof oft vorum við komnir í vænlegar stöður en sendingar og fyrirgjafir upp við vítateig fóru því miður oftar en ekki forgörðum.

Síðustu 10 mínúturnar færðu Fylkismenn sig upp á skaftið og gerðu sig líklega með 2-3 hnitmiðuðum sóknum. Svo fór að Fylkismenn skoruðu sigurmarkið í uppbótartíma og var þar að verki varamaðurinn Jóhann Þórhallsson og var markið sem fyrr af ódýrara taginu.

Annað tap FH í deildinni í röð staðreynd og ljóst er að menn þurfa að gera mun betur. Menn geta talað endalaust um þetta eða hitt en það sem mér finnst áberandi er að það vantar kraft, grimmd og stemmningu. Eins vinnum við ekki boltann nógu framarlega á vellinum þannig að sóknarlotur okkar þurfa yfirleitt að byrja frá aftasta manni.

Næst er Evrópuleikur á fimmtudaginn í Kaplakrika og þá gefst liðinu kærkomið tækifæri til að ná aftur takti.

Aðrar fréttir