Engir afslættir gefnir á svörtum föstudegi | 6 marka sigur á Seltjarnarnesi

Gott gengi FH-stelpna í Grill 66 deildinni hélt áfram í gærkvöldi, er þær sóttu mikilvæg tvö stig út á Seltjarnarnes.

Vitað var fyrirfram, að Gróttuliðið yrði erfitt viðureignar. Seltirningar hafa staðið sig vel á þessu tímabili, og voru fyrir leik gærdagsins í 4. sæti, tveimur stigum á eftir okkar stelpum.

Embla bjó til alls konar vandræði fyrir lið Gróttu í gærkvöldi. Þegar hún var ekki að brjóta ökkla varnarmanna Gróttu með fintum sínum, þá átti hún no-look stoðsendingar í horn og á línu. Geggjuð. / Mynd: Brynja T.

Það var líka mikið jafnræði á milli liðanna framan af. Jafnt var á flestum tölum í fyrri hálfleik og jafnvel var það svo, að Gróttuliðið hefði frumkvæðið. Spiluðu heimakonur góðan varnarleik, sem stelpurnar okkar áttu í nokkrum erfiðleikum með að leysa fyrst um sinn.

Það kom hins vegar að því, að FH-stelpur fundu lausnir við þeim varnarleik. Frumkvæðið varð í meira mæli þeirra eftir því sem leið á hálfleikinn, og að honum loknum voru FH-ingar með 1 marks forystu, 11-12.

Seinni hálfleikurinn varð aldrei nokkur spurning, því stelpurnar okkar tóku hann föstum tökum. Með stórgóðum varnarleik tókst FH-stelpum að slá vopnin úr höndum Gróttukvenna, sem héldu því síður í við okkar konur. Hægt og rólega bætti FH-liðið við forystu sína, án þess þó að lið Gróttu hleypti leiknum einhvern tímann upp í eitthvað rugl. Að lokum skóp þessi stórgóði síðari hálfleikur FH-stelpna 6 marka sigur, 23-29, og eru þær í betri stöðu í 2. sæti deildarinnar. Þrjú stig skilja FH-stelpur og Selfyssinga að, en Sunnlendingar eiga þó leik til góða.

Birna og Britney. Engir afslættir gefnir. / Mynd: Brynja T.

Stelpurnar uppskáru eins og þær sáðu í gær. Þolinmæði, agi og ákveðni skiluðu stigunum tveimur í hús að lokum. Það var gaman að horfa á FH-liðið í gær, sem endranær, því framfarirnar eru greinilegar. Milli ára, svo sannarlega, en einnig milli leikja. Úrslitin tala enda sínu máli: FH-liðið er taplaust í síðustu 10 leikjum sínum í deild og bikar.

Markahæst FH-inga að þessu sinni var Sylvía Björt Blöndal með 9 mörk. Næst á eftir henni var Fanney Þóra Þórsdóttir, sem skoraði 6 mörk í 6 skotum. Í markinu varði Dröfn Haraldsdóttir vel að venju, en skotin urðu 15 að lokum.

Næsti leikur stelpnanna okkar er þriðjudaginn 10. desember, en þær sækja þá U-lið Stjörnunnar heim í Mýrina í Garðabæ. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Mörk FH: Sylvía Björt Blöndal 9, Fanney Þóra Þórsdóttir 6, Embla Jónsdóttir 5, Ragnheiður Tómasdóttir 5, Britney Cots 3, Aníta Theodórsdóttir 1.
Varin skot: Dröfn Haraldsdóttir 15.

 

Aðrar fréttir