Faðirinn lá fyrir syninum

Faðirinn lá fyrir syninum

Það voru Víkingar sem heimsóttu drengina okkar í kvöld. Kalt var í veðri en þó blikur á lofti. Leikurinn hófst stundvíslega kl. 19:30, þökk sé mönnunum með flautuna þeim Ingvari og Jónasi.

Nokkur slæðingur af fólki var mættur á pallana til að berja búningana augum. Okkar drengir skoruðu tvö fyrstu mörk leiksins við ágætar undirtektir. Við náðum fljótlega átta marka forystu, síður en svo óverðskuldaða. 18-11 fyrir FH í hálfleik.

Síðari hálfleikur var ekki beint fjörugur. Víkingar náðu að minnka muninn í þrjú mörk þegar innan við tíu mínútur voru eftir en það kom ekki að sök og endaði leikurinn með sex marka sigri FH-inga, 34-28. Það skilar okkur í 2. sætið í deildinni sem er ekkert nema frábært.

Mikið var um að vera á hliðarlínunni við að skipta inn á leikmönnum. Allir fengu að spila hjá FH nema Maggi Sigmunds. Hann var brjálaður.

Þess má geta að í leiknum áttust feðgarnir Bjarki Sigurðsson og Örn Ingi Bjarkason við og var skemmtilegt að horfa á rimmu þeirra tveggja.

    

Feðgarnir börðust… sonurinn hafði betur í kvöld enda með blíðara bros!

Bjarki, kominn á fimmtugsaldurinn, var án efa besti leikmaður Víkinga en sóknarleikur þeirra breyttist til hins betra þegar hans naut við.
Aron Pálmarsson var lykilmaður í liði FH í dag og tók af skarið í sóknarleiknum. Ásbjörn átti góðan dag og Jónatan Jónsson kom mjög sterkur inn á línuna.

Mörk FH: Aron Pálmarsson 9, Ásbjörn Friðriksson 6/1, Jónatan Jónsson 5, Ólafur Guðmundsson 5, Ari Þorgeirsson 4, Sigurður Ágústsson 3, Halldór Guðjónsson 1, Örn Ingi Bjarkason 1.

Daníel Andrésson varði 17 skot í marki FH, þar af tvö vítaköst.

Mörk Víkings: Hreiðar Haraldsson 8, Bjarki Sigurðsson 5, Sverrir Hermannsson 5, Davíð Georgsson 4/2, Sveinn Þorgeirsson 3, Hjálmar Arnarson 2, Þröstur Þráinsson 1.

Árni Gíslason varði 9 skot, þar af tvö vítaköst í marki Víkings og Björn Viðar Björnsson 3 skot.

Látum þetta duga í bili og snúum okkur að sunnudeginum 7.des. þegar Haukar kíkja í heimsókn. Fylgist með fh.is í dag og um helgina!

Fréttaritari:
Fyrirliðinn, Hjörtur Hinriksson – með nokkrum viðbótum er um að ræða bestu skrif á fh.is svo lengi sem elstu menn muna.

Upplýsingar um Hjört Hinriksson

Aðrar fréttir