FH 2 tapaði fyrir HK í Faxaflóamóti 3. flokks

FH 2 tapaði fyrir HK í Faxaflóamóti 3. flokks

FH-ingar virtust hálf sofandi í upphafi leiks og HK refsaði með tveimur mörkum og hefðu getað bætt því þriðja við en Sigurður Ingiberg markvörðu bjargaði með góðu úthlaupi. FH-ingar voru ekki nógu þéttir í varnarleik sínum, voru of langt frá mönnunum og slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Einnig voru menn að klappa boltanum of mikið í sókninni og því náðum við ekki nógu góðum leik í fyrri hálfleik. Að því sögðu hefðum við getað sett 1-2 mörk í hálfleiknum.

Það var allt annað lið sem kom til leiks í síðari hálfleik og strax í upphafi hálfleiksins bjargaði vinstri bakvörður HK-manna á línu eftir bylmingsskot Hermanns Á. Björnssonar sem beið eins og hrægammur við vítateiginn eftir hornspyrnu. Hermann trúði ekki sínum eigin augum enda með ólíkindum að bakvörðurinn hafi verið enn á línunni. Gott ef hann hélt sér ekki í stöngina.

Hermann virtist hafa fundið fjölina sína því enn fékk hann skotfæri eftir hornspyrnu en í þetta sinn bjargaði markvörður HK meistaralega. Hermann minnti þarna óneitanlega á Bryan Robson sem hafði sjötta skilningarvitið að vita nákvæmlega hvar bolti myndi falla í vítateignum.

HK-menn voru þó ekki af baki dottnir og bættu við þriðja markinu eftir skyndisókn og tók nú heldur betur að syrta í álinn. Þegar þarna var komið sögu hafði Andri Kristinn Ágústsson fyrirliði yfirgefið völlinn tognaður aftan í lærinu. Andri hafði átt góðan leik í hjarta FH-varnarinnar og var skarð hans vandfyllt.

Strákarnir lögðu þó ekki árar í bát, drifnir áfram af stórleik Matthíasar Jónssonar sem var nánast út um allan völl. Matthías minnkaði muninn í 1-3 10 mínútum fyrir leikslok og fimm mínútum síðar spólaði hann sig í gegnum HK-vörnina og lagði boltann fyrir markið á markahrókinn Smára Leó Leifsson sem lagði boltann í netið af stuttu færi. FH-ingar voru nú komnir með blóðbragð í kjaftinn og pressuðu HK-menn um allan völl í von um að jafna leikinn. Magnús Kezmann fékk dauðafæri þegar hann prjónaði sig framhjá varnarmönnum HK en markvörður Kópavogsbúa sá við honum með ævintýralegri markvörslu. Það er skammt milli hláturs og gráturs og í næstu sókn stráðu HK-menn salti í sárin með frekar ódýru marki eftir hornspyrnu og innsigluðu 2-4 sigur.

FH-ingar áttu ágæta spretti í þessum leik sem var þó ekki eins góður og gegn Breiðabliki í síðustu viku. Strákarnir verða læra að það dugir ekki að ætla mæta til leiks í síðari hálfleik heldur byrja leikinn af krafti frá fyrstu mínútu.

Góður dómari leiksins var unglingalandsliðsmaðurinn Brynjar Benediktsson og á línunni voru þeir Gunnar Páll Pálsson og Helgi Valur Pálsson, en aðstoðardómararnir eru þó alls óskyldir. Tríóið var hreinlega frábært.

Aðrar fréttir