FH er deildarbikarmeistari!

FH er deildarbikarmeistari!

Lið FH í meistaraflokki karla í handbolta bar sigur úr býtum í Flugfélags Íslands-bikarnum, þ.e.a.s. deildarbikarnum, eftir sigur á liði Akureyrar í úrslitaleik fyrr í kvöld. Er þetta fyrsti titillinn sem félagið vinnur í meistaraflokki karla síðan árið 1994, er FH urðu bikarmeistarar.

Leikurinn var æsispennandi, gífurlega jafn en þó höfðu Akureyringar lengst af nokkurra marka forskot. Mest náðu þeir fjögurra marka forskoti í síðari hálfleik. FH-ingar sýndu gríðarlega mikinn karakter í lok leiks og náðu að lokum að sigra með þriggja marka mun, 29-26.

Leikurinn fór fram í þétt setinni Strandgötunni og var mikil stemning allan tímann, FH-ingar létu vel í sér heyra og það skilaði sér greinilega inn á völlinn til leikmannanna. Frábært veganesti fyrir jólafríið.

Markahæstir FH-inga voru þeir Baldvin Þorsteinsson og Ásbjörn Friðriksson með 7 mörk hvor. Þá var Daníel Andrésson frábær í markinu en hann varði 19 skot.

Til hamingju FH-ingar!

Aðrar fréttir