FH er Íslandsmeistari í 2. flokki karla

FH er Íslandsmeistari í 2. flokki karla

FH varð í kvöld Íslandsmeistari í knattspyrnu í 2. flokki karla þriðja árið í röð er liðið lagði Víkinga í lokaleik Íslandsmótsins er fram fór í Víkinni. FH-ingar þurftu nauðsynlega á sigri að halda í leiknum til að vinna mótið en liðið hefur háð harða baráttu við Breiðablik í sumar um Íslandsmeistaratitilinn.

Eftir markalausan fyrri hálfleik voru það Víkingar sem komust yfir með marki Arons Þrándarsonar snemma í seinni hálfleik. Staðan virtist erfið hjá okkar mönnum þegar Brynjar Jónasson tók til sinna ráða, klobbaði einn Víkinginn smekklega og hamraði knöttinn með vinstri í slá og inn. Algjörlega magnað mark og staðan orðin 1-1. Skömmu síðar geystist bakvörðurinn Böðvar Böðvarsson upp vinstri kantinn og átti góða sendingu fyrir markið á Andra Jónasson sem skallaði knöttinn í markið og kom FH yfir. Róbert Leó Sigurðarson bætti um betur með þriðja markinu en Víkingar náðu að minnka muninn rétt fyrir leikslok og lokatölur í Víkinni 3-2 fyrir Fimleikafélagið.

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út hjá lærisveinum Ingvars Jónssonar við lokaflautið enda frábært sumar að baki. Fyrirliðinn Einar Karl Ingvarsson hóf bikarinn á loft en hann er einn af fáum leikmönnum FH-liðsins sem hefur verið í sigurliði á Íslandsmótinu í 2. flokki þrjú ár í röð.

Þess má einnig geta að 2. flokkur vann á dögunum einnig Íslandsmeistaratitil í B-liðum með glæsibrag. Liðið hefur leikið vel í sumar og var titillinn þegar tryggður er tvær umferðir voru eftir af mótinu.

FH.is óskar leikmönnum og þjálfurum 2. flokks til hamingju með frábæran árangur í sumar!

Aðrar fréttir