FH eSports semur við besta League of Legends lið landsins

Rafíþróttir FH, eða FH eSports, og liðsmenn Frozt hafa gert með sér samning um að Frozt-liðið æfi og keppi í tölvuleiknum League of Legends (LoL) undir merki FH eSports. Þetta er fyrstu samningar FH eSports við rafíþróttamenn.

Nýverið vann Frozt Lenovo deildarkeppnina í LoL og komst þar með í úrslitakeppni deildarinnar. Liðið vann svo sinn leik í undanúrslitunum og næstkomandi miðvikudag er úrslitaleikurinn í LoL þar sem Frozt mætir DUSTY í Háskólabíói. Að auki hefur Frozt-liðið unnið sér inn rétt til að keppa á Nordic Championship, er kalla mætti Norðurlandamót í LoL, sem hefst um miðjan júlí.

„Við höfum fylgst með Froztmönnum spila og hrifist af þeirra spilamennsku og liðsheild. Þetta eru líka flottir og metnaðarfullir strákar. Okkar hugmyndir og þeirra fara saman. Við stefnum í sömu átt. Þeir vilja bæta leik sinn frekar og við teljum að með því að veita þeim góða aðstöðu til æfinga og keppni og annan stuðning geti þeir orðið enn betri í leiknum og einnig náð góðum árangri í keppnum og mótum í LoL á erlendum vettvangi. Við höfum mikla trú á þeim og erum mjög ánægðir með að fá þá til liðs við okkur. Við hlökkum til að vinna með þeim og vonumst eftir farsælu samstarfi”, segir Hallsteinn hjá FH eSports.

Liðsmenn Frozt fagna því að fá tækifæri að koma saman til æfinga í Kaplakrika: „Það myndast allt önnur og betri stemning að mæta á skipulagðar æfingar í spilun LoL í umhverfi leiðandi íþróttafélags sem lítur á okkur sem íþróttamenn. Þar getum við setið og spilað saman, æft okkur markvisst í tilgreindum þáttum leiksins, bætt samskipti og samvinnu okkar á milli, o.m.fl. FH eSports vill byggja upp öflugt rafíþróttastarf í félaginu og við erum þakklátir fyrir að fá að taka þátt í því spennandi verkefni”.

Liðið skipa: Gísli Freyr Sæmundsson (Zarzator), Kári Gunnarsson (Tediz), Páll Jakobsson (Legions), Garðar Snær Björnsson (Sósa), Róbert Daníel Cutress (Hyperactive) og Daníel Sigurvinsson (NaCl).

 

Aðrar fréttir