FH-Fylkir

FH-Fylkir

Tímabilið okkar rúllaði af stað með leik gegn HK stúlkum á heimavelli okkar laugardaginn 2.október. Sá leikur spilaðist jafnt framan af en svo þegar að flautað var til hálfleiks vorum við fjórum mörkum undir. Eftir að hafa farið vel yfir málin í hálfleik komum við mun grimmari til leiks og létum vel til okkar taka í varnaleiknum sem að skiluðu okkur góðri markvörslu og þar af leiðandi flottum hraðaupphlaupum. Þetta skilaði okkur fjögurra marka sigri 24-20 og tveimur stigum.


Næst mættum við Stjörnunni síðastliðinn laugardag og það má eiginlega segja sem svo að við höfum ekki mætt til leiks fyrr en í seinni hálfleik því við vorum 9 mörkum undir í hálfleik. Eftir arfaslakan fyrri hálfleik af okkar hálfu ákváðum við að hífa upp um okkur buxurnar og reyna að gera eitthvað af viti sem að skilaði sér í því að jafnt og þétt tókst okkur að saxa á forskotið en því miður skilaði það okkur engu því 31-30 var niðurstaðan. Sem betur fer var hægt að taka út úr þessum leik nokkra jákvæða punkta sem byggt verður ofan á.

En þá að leiknum á laugardaginn, Fylkir mætir í Krikann með nánast óbreytt lið síðan á síðustu leiktíð en Arna Valgerður Erlingsdóttir gekk í raðir Fylkis frá KA og kemur hún til með að styrkja þeirra lið. Eins og þeir sem fylgdust með okkur síðasta vetur vita þá spiluðum við tvo leiki við Fylki á síðasta tímabili, fyrri leikurinn var í Kaplakrika þar sem að við sýndum frábæran leik og unnum virkilega sannfærandi 32-25 sigur. Síðari leikurinn fór ekki eins vel fyrir okkur en þeim leik töpuðum við 21-17.

Okkar hópur er vel skipaður við höfum nánast haldið sama liði og síðasta vetur og fengið til liðs við okkur Hind Hannesdóttur og fullt af ungum og efnilegum stelpum. Við getum verið stolt af því að tefla fram liði sem er nánast eingöngu skipað af uppöldum FH-stelpum.

Í lokin vil ég bara hvetja alla til að koma og styðja okkur á laugardaginn og framvegis í vetur.  Við erum með virkilega skemmtilegt lið sem á vafalaust eftir að vera gaman að fylgjast með í vetur.

 

Áfram FH!!!

Fyrir hönd mfl kvk

Ragnhildur Rósa Guðmundsdóttir

Aðrar fréttir