FH – Haukar – orrusta nr. 2

FH – Haukar – orrusta nr. 2

 

       

Haukarnir mæta í Krikann í sannkölluðum stórleik í Eimskipsbikar karla á sunnudag kl 16. Sagan endurtekur sig því að á nákvæmlega sama tíma og á sama stað í fyrra áttust þessi sömu lið þegar við FHingar slógum Hauka út í stórkostlegum íþróttaviðburði fyrir framan fullan Kaplakrika. Klárlega má búast við svipuðum viðburði á sunnudaginn.

Haukaliðið hefur spilað vel í vetur og verið nokkuð stöðugir. Hafa ekki tapað leik og gengið vel í evrópukeppni. Helstu póstar eru Sigurbergur Sveinsson, Björgvin Hólmgeirsson, Birkir Ívar Guðmundsson og Freyr Brynjarsson. Leikur Hauka veltur þó mikið á frammistöðu Sigurbergs sem kom bersýnilega í ljós gegn Val á dögunum en hann náði sér ekki á strik þegar Haukamenn sluppu jafntefli eftir að hafa elt Vals liðið allan seinni hálfleikinn.


  

FH liðið er með mjög gott lið en hafa verið brokkgengir og liðið hefur ekki verið alltof sannfærandi á heimavelli í vetur. Liðið hefur þó átt frábæra leiki eins og t.d. gegn Akureyri, Stjörnunni og Val en farið niður á lægra plan í leikjum gegn Gróttu, HK og Fram. Liðið er gott, með einn besta mannskap á landinu en þurfa að ná upp meiri stöðugleika. Getan er til staðar og nægur efniviður til þess að gera frábæra hluti.

Eftir heldur dapran dag í gær gera FHingar ráð fyrir að liðið nái sér upp, fái smá blóð á tennurnar og stefni á ekkert annað en sigur á sunnudag. Bikarinn, heiðurinn og stoltið er að veði.

Góðir FHingar – mætum öll í Krikann á sunnudaginn, hvetjum strákana áfram, fáum alvöru stemmningu á pallana og hjálpum strákunum að vinna orrustu nr. 2 í Hafnarfirði!

Við erum FH

Aðrar fréttir