FH hetjur á Gogga Galvaska

FH hetjur á Gogga Galvaska

Við FH-ingar fórum með heldur lítinn hóp nú í ár miðað við vanalega þar sem margir voru forfallaðir meðal annars vegna utanlandsferðar 12-14 ára hópsins, en þeir krakkar fara út í þessari viku í æfinga- og keppnisferð til Þýskalands. En það breytti því ekki að krakkarnir stóðu sig afar vel á mótinu.
Höfðingjarnir í 11-12 ára flokk stráka gerðu sér lítið fyrir og sigruðu í stigakeppni síns flokks á nokkuð sannfærandi hátt. Þar er á ferðinni stór hópur af efnilegum íþróttamönnum sem geta náð langt.
Stelpurnar í sama flokk stóðu sig einnig með stakri prýði og stóðu margsinnis á verðlaunapalli og enduðu í öðru sæti í stigakeppninni á eftir stelpunum úr Breiðablik.
Piltarnir í 13-14 ára flokknum voru aðeins þrír og þar af voru tveir á yngra ári. Það breytti því ekki að þeir mokuðu inn stigum og enduðu í þriðja sæti í stigakeppninni enda eru þetta fjölhæfir strákar sem meðal annars urðu íslandsmeistarar síðasta sumar.
Á Goggamótinu er keppt til heildarstiga milli félaga í flokkum 11-14 ára og sigruðum við í FH þá keppni í fyrra á glæsilegan hátt. Nú í ár mættum við til leiks fámönnuð og settu krakkarnir sér það sem markmið að hafa gaman af góðri keppni og reyna að bæta sinn árangur. Þegar upp var staðið og heildarúrslit lesin upp kom það síðan í ljós að við höfðum endað í öðru sæti, aðeins hálfu stigi á eftir liðið Breiðabliks. Jafn skemmtileg og spennandi keppni hefur sjálfsagt ekki sést á frjálsíþróttavöllum landsins í mörg ár og er blikum hér með þakkað fyrir skemmtilega keppni og jafnframt óskað til hamingju með góðan sigur.
Á meðan mótinu stóð og eftir það kom nokkrum sinnum upp ansi mikil reikistefna um dómgæslu og leikreglur þar sem mótshaldari gerðist sekur um nokkur mistök. Leikreglur eru settar til að þeim sé fylgt, sérstaklega þegar komið er út í stigakeppnir. Ef reglum er ekki fylgt hefur það oftar en ekki í för með sér leiðindi og klögur. Nauðsynlegt er að starfsmenn móta kynni sér reglur til að komast hjá leiðindamálum en öll mál ættu samt að vera leyst núna. Vonandi kemur slík staða ekki upp aftur þar sem svona dregur niður starfsemi félaganna og setur blett á íslenskt mótahald. En mistök eru til að læra af þeim.

En mótið um helgina snérist nú ekki bara um eldri krakkana og verðlaun. Yngri krakkarnir mættu mörg hver til leiks enda stíga margir sín fyrstu skref í frjálsíþróttum á Gogga Galvaska. Á mótinu er það haft sem aðalmarkmið fyrir yngri iðkendur að leiðbeina þeim í keppni og skemmta þeim svo allir fari brosandi þeim. Það tókst mjög vel eins og venja hefur verið. Krakkarnir stóðu sig líka öll mjög vel og má þar helst nefna tvo einstaklinga, Adam Freysson og Steinunni Örnu Atladóttur, en þau eru bæði 10 ára. Adam sigraði í öllum sinum greinum, 60m og 600m hlaupum, langstökki og boltakasti auk þess sem hann sigraði með félögum sínum úr FH sveitinni í boðhlaupi. Steinunn sigraði í þremur greinum, 60m hlaupi, langstökki og boltakasti og urðu stelpurnar síðan í öðru sæti í boðhlaupinu. Þarna er greinilega íþróttafólk framtíðarinnar á ferðinni.

Að móti loknu er gaman að hugsa til þess hversu vel gekk hjá okkar krökkum. Þau mættu hress til leiks og tóku vel á því þrátt fyrir leiðindaveður og höfðu öll gaman af. Fjölmargir foreldrar fylgu krökkunum til leiks og er þeim þakkað fyrir það, enda þurfa börnin á stuðningi ykkar og leiðsögn að halda. Einnig vil ég þakka þeim Elísabetu Ólafsdóttur, Eggerti Bogasyni, Ragnheiði Ólafsdóttur, Iðunni Arnardóttur og Ásthildi Erlingsdóttur fyrir alla hjálpina um helgina. Sérstakar þakkir fá síðan krakkarnir fyrir frábæran árangur og að vera sér og sínu félagi til mikils sóma.

Það er greinilegt björt framtíð hjá okkur í FH!!

með bestu kveðjum,
Ævar Örn Úlfarsson, þjálfari

Aðrar fréttir