FH-HK Umfjöllun

FH-HK Umfjöllun

VS

Kaplakriki, fimmtudagurinn 25. september, 2008 kl 19:30

FH tapaði naumlega fyrir geysiöflugu liði HK í spennuþrungnum leik 33-36. FH liðið átti mjög góðan leik og var síst verri aðilinn í leiknum.

Fyrri hálfleikur
FH hóf leikinn mun betur, voru grimmari í öllum sínum aðgerðum og HK menn áttu í erfiðleikum með frískan og hraðan sóknarleik okkar manna til að byrja með.  FH komst í 4-1 en fljótlega fór HK liðið að sýna tennurnar og jöfnuðu í 4-4 eftir 8 mínútna leik.
Jafnt var á öllum tölum mestan hluta fyrri hálfleiks Aron Pálmarsson var allt í öllu í sóknarleik FH og varnarmenn HK réðu lítið við kappann. Á meðan sóknin gekk að mestu var vörnin ekki eins góð. Þegar 5 mínútur lifðu af hálfleiknum fóru FHingar illa að ráði sínu, voru mikið í ótímabærum skotum sem HK menn refsuðu okkur fyrir og vörnin var lek. Við misstum HK menn í 14-16 og staðan var síðan 16-20 í hálfleik HK í vil sem er heldur mikið skor í einum hálfleik.

Seinni hálfleikur
HK menn gáfu í ef eitthvað var í seinni hálfleik með Valdimar Þórsson í fararbroddi og juku muninn í 17-23 í byrjun seinni hálfleiks. Hér leit allt út fyrir að HK menn myndu taka FH létt og gjörsigra leikinn en strákarnir okkar stóðu sig eins og hetjur, bitu svo sannarlega í skjaldarrendur og minnkuðu muninn í 21-23 eftir 40 mínútna leik með mikilli seiglu og áræðni. Magnús Sigmundsson fór að verja eftir rólegan fyrri hálfleik og Aron Pálmarsson var atkvæðamikill í sókn. HK leiddi þó áfram með 2-4 mörkum voru t.a.m. yfir 24-28 og 26-29 en þegar 9 mínútur voru eftir af leiknum minnka FHingar muninn í 29-30. Allt ætlaði hér um koll að keyra í Kaplakrika og komin nokkur ár síðan undirritaður fann fyrir eins mikilli stemmningu í húsinu.

Lokaspretturinn var æsispennandi. Í stöðunni 33-34 og 50 sekúndur eftir skoraði Valdimar Þórsson úr víti, sitt 15. mark í leiknum og staðan 33-35 HK í vil. FHingar brunuðu þá í sókn og fengu víti hinu megin þegar 30 sek voru eftir. Aron Pálmarsson tók vítið en brenndi af í stöng. HK menn áttu síðan síðustu sókn og lokatölur 33-36 fyrir HK eftir æsispennandi leik í Hafnarfirðinum.

Niðurstaðan
Þó svo að niðurstaðan hafi ekki verið okkur í hag þarf FH liðið ekki að skammast sín fyrir sína frammistöðu. Með örlítilli heppni og örlítið betri ákvarðanatöku í sókn og vörn hefði liðið oftar en einu sinni getað jafnað í lokin og þá er aldrei að vita nema liðið hefði náð stigi eða stigum. Áræðnin, baráttan og krafturinn var til staðar og á því fer FH liðið langt í vetur ásamt þeim hæfileikum sem það býr yfir. Ef við skoðum frammistöðu einstakra leikmanna verður að nefna þátt Arons Pálmarssonar sem var gífurlega atkvæðamikill og fór nokkuð oft illa með varnartröllin Sverre og Sigurgeir hjá HK. Hann fór þó nokkrum sinnum fram úr sjálfum sér og hefði að ósekju mátt vera örlítið þolinmóðari og spila boltanum frekar þegar ógnin var sem mest af honum í stað þess að taka skot úr illa ígrunduðum færum. 12 mörk í leiknum segja þó allt sem segja þarf. Aðrir í liðinu áttu annars mjög góðan leik, Sigurður á línunni var góður, Ásbjörn átti nokkur mjög mikilvæg mörk, Jón Helgi Jónsson spilaði góða sókn og brýnin Guðmundur og Hjörtur stóðu fyrir sínu. Magnús Sigmunds tók síðan til óspilltra málanna í seinni hálfleik eftir rólegan fyrri hálfleik. Frammistaða drengjanna var þó heilt yfir frábær.
Virkilega skemmtilegur leikur sem bauð upp á allt. Fjöldi áhorfenda mættu og mynduðu frábæra stemmningu þegar spennan var sem mest.

Markaskorarar FH (mörk/skot):

Aron Pálmarsson 12/27
Ásbjörn Friðriksson 5/8
Guðmundur Pedersen 4/6
Sigurður Ágústsson 4/5
Ólafur Guðmundsson 3/6
Hjörtur Hinriksson

Aðrar fréttir