FH í bikarúrslit!

FH í bikarúrslit!

FH-ingar stilltu upp sama liði og gegn KR á fimmtudaginn. Fyrri hálfleikur var fjörugur, færi á báða bóga en FH-ingar þó sterkari.

Á 52. mínútu mistókst Blikum að hreinsa frá og Ásgeir Gunnar Ásgeirsson þrumaði boltanum upp í þaknetið og staðan því orðin 1-0 fyrir FH. Eftir markið voru FH-ingar sterkari og voru líklegri til að bæta við mörkum. Það var þó Breiðablik sem jafnaði leikinn á 65. mínútu og var þar að verki framherjinn sem ber hið skemmtilega nafn Prince.
Markið virtist slá FH-inga nokkuð út af laginu og næstu 15 mínútur eða svo virtust Blikar með yfirhöndina. FH-ingar réttu þó úr kútnum og á lokamínútum venjulegs leiktíma hefðu bæði lið getað stolið sigrinum.

Í framlengingunni sýndu FH-ingar af hverju þeir eru Íslandsmeistarar síðustu þriggja ára. Á 100. mínútu braust Guðmundur Sævarsson upp hægri vænginn og gaf góða sendingu fyrir markið þar sem Davíð Þór Viðarsson kom aðvífandi og skallaði að marki en markvörður Blika varði meistaralega en Tryggvi Guðmundsson fylgdi vel á eftir og ýtti boltanum yfir marklínuna 2-1.

Breiðablik fjölgaði í sókninni og eðlilega opnuðust svæði fyrir FH-inga fram á við og fengu þeir nokkrar vænlegar skyndisóknir og ein slík skilaði marki á 120. mínútu þegar Atli Guðnason mætti á fjærstöng og renndi boltanum í netið eftir góðan undirbúning Tryggva Guðmundssonar.

Fögnuður FH-inga í stúkunni og niðri á vellinum var ósvikinn í leikslok. Það er frábært að vera komnir í bikarúrslit en nú leggjum við þann leik til hliðar enda er hann í lok tímabilsins. Framundan er hörku barátta um Íslandsmeistaratitilinn og allir FH-ingar verða að leggja sitt af mörkum í þeirri baráttu.

FH-liðið átti góðan dag. Sverrir hafði Prinsinn í vasanum og Tommy var góður líka. Gummi Sævars er eins og ég hef sagt áður að nálgast sitt besta form. Tryggvi er alltaf líklegur til að skora eða leggja upp mörk. Miðjan var góð og Venni átti sérlega góða innkomu og einnig Arnar Gunnlaugsson sem átti góða spretti. Maður leiksins var þó Davíð Þór Viðarsson. Tók yfirleitt réttar ákvarðanir með boltann og var gífurlega vinnusamur.

Aðrar fréttir