FH-ÍBV 1-1

FH-ÍBV 1-1

Fyrir leikinn hafði ÍBV náð frábærum úrslitum gegn GRV í bikarnum svo búast mátti við sterku liði.  FH var hinsvegar sterkari aðilinn framan af, hélt boltanum á löngum köflum en náði ekki að skapa sér teljandi færi.  Það var því þvert á gang leiksins þegar ÍBV skoraði úr sinni fyrstu sókn eftir varnarleysi á miðju og klaufagang í vörn FH sem ekki náði að hreinsa frá marki og það nýttu Eyjastúlkur sér.  Staðan í hálfleik 0-1 gestunum í vil.

Í síðari hálfleik var það sama upp á teningnum, FH hélt boltanum lengstum en náði ekki ógna verulega við mark ÍBV.  Sigrún Ella Einarsdóttir vængmaður FH skoraði hinsvegar óvænt þegar fyrirgjöf hennar rataði í gegn um vörn ÍBV og í netið.  Kærkomið mark hjá Sigrúnu sem eflaust, eins og sönnum markaskorara sæmir, heldur því fram að boltinn hafi átt að fara í netið.  Eftir það færði FH lið sitt ofar á völlinn, sótti án afláts og freistaði þess að sækja öll stiginn.  En flestar sóknir runnu út í sandinn og liðið náði aldrei að ógna veru lega við mark andstæðinganna.  Lokatölur 1-1.

Fyrir leikinn hefði einhver sagt að FH gæti verið sátt við stigið en eins og leikurinn þróaðist þá er jafntefli vonbrigði.  Stelpurnar mættu ákveðnar til leiks en gestirnir og ætluðu sér ekki að láta taka sig í bólinu.  Neistann og ákefðina og frumkvæðið á vallarhelming andstæðinganna hinsvegar vantaði og því á liðið vart meira skilið.

Birna markmaður og vörn FH var sem fyrr góð ef undan er skilið mark andstæðinganna þar sem vörnin átti að gera mun betur.  Miðjan var þokkaleg en baráttan og varnarvinnan var ekki nógu góð.  Sóknin var á tíðum í engum takt við leikinn, kantmenn illa staðsettir of langt úti og framherjar oftast of aftarlega og of langt frá aftasta varnarmanni ÍBV.

Lið FH á alls ekki að sætta sig við jafnteflið í dag gegn sterku liði ÍBV.  FH liðið fékk frá fyrstu mínútu gott tækifæri til að taka öll þrjú stigin en fór illa að ráði sínu.  Stelpurnar verða að gera betur gegn toppliðunum ætli þær sér öruggt sæti í úrslitakeppninni um sæti í úrvalsdeild í haust.

Sóknarmaðurinn Guðrún Björg Eggertsdóttir var valin maður leiksins í liði FH og er ágætlega að því komin.

Næsti leikur FH er miðvikudaginn 24. júní gegn ÍA í Krikanum.

Á myndinni má sjá markaskorarann Sigrúnu Ellu Einarsdóttur.

Aðrar fréttir