FH-ingar blésu í glóðina

FH-ingar blésu í glóðina

Loft var lævi blandið í Kaplakrika fyrir þennan mikilvæga leik. Fjölmargir Keflvíkingar voru á leiknum enda dugði þeim jafntefli til að verða Íslandsmeistarar í fyrsta skipti í 35 ár.

 

FH-ingar byrjuðu af feykilegum krafti og virtust koma vel stefndir til leiks. Þjálfararnir gerðu breytingar á liðinu. Tímabærar að margra mati. Gummi Sævars og Freyr Bjarna komu í bakvarðastöðurnar og Ásgeir var á miðjunni með Davíð. Frammi voru svo Tryggvi og Atli Viðar og Matti Gumm og Atli Guðna á vængjunum. Semsagt 4-4-2 og það verður að segjast eins og er að FH-liðið leit miklu betur út í þessum leik og ekki eins fyrirsjáanlegt og stundum áður.

 

FH-ingar áttu nokkur færi og góðar sóknir en tókst ekki að skora. Keflvíkingar voru mjög hættulegir í skyndisóknum og FH-vörnin tefldi oft á tæpasta vað í rangstöðutaktíkinni. Guðmundur Steinarsson slapp til að mynda einn í gegn en skaut framhjá. En staðan var markalaus í hálfleik.

 

FH-ingar héldu áfram pressunni í seinni hálfleik og Ásgeir Gunnar Ásgeirsson náði forystunni fyrir FH á 58. mínútu með góðu skoti. FH-ingar héldu áfram að sækja og sérstaklega sóttu þeir grimmt upp hægri vænginn þar sem Gummi Sævars og Matthías Guðmundsson þræddu sig í gegn ótal sinnum. Sókn FH-inga bar ávöxt öðru sinni á 67. mínútu þegar Atli Viðar Björnsson skaut þrumuskoti frá vítateig og kom FH í 2-0. Áfram hélt sókn FH-inga og þeir fengu þrjú dauðafæri til að bæta þriðja markinu við en ekki gekk rófan.

 

En á örfáum mínútum snérist leikurinn á hvolf. Varamaðurinn Magnús Þorsteinsson skoraði tvívegis á 77. og 81. mínútu og Keflvíkingar skyndilega komnir með aðra hönd á Íslandsmeistaratitilinn. Tryggvi Guðmundsson sótti boltann í markið og öskraði einhver vel valinn orð við félaga sína. Það var óhætt að segja að þessi staða var ekki í samræmi við gang leiksins því FH hafði verið mun sterkari aðilinn. Strákarnir létu þó ekki þessa blautu tusku í andlitið á sig fá og reyndu allt til að knýja fram sigur. Tryggvi átti hjólhestaspyrnu í slá og Matti Villa átti sömuleiðis skalla tréverkið. En þegar venjulegur leiktími var að renna út kom sigurmarkið. Tryggvi Guðmundsson prjónaði sig af harðfylgi framhjá varnarmönnum Keflvíkinga og sendi boltann fyrir markið á Atla Viðar sem brást ekki bogalistin og sendi boltann með innanfótarspyrnu í netið og allt ætlaði um koll að keyra í Kaplakrika.

 

Dómarinn bætti 4 mínútum við en FH-ingar héldu út og fögnuðu vel í lokin.

 

Með þessum sigri eru FH-ingar búnir að opna baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn upp á gátt. Það er einnig sálfræðilega sterkt fyrir FH-inga að hafa sundurspilað Keflvíkinga löngum stundum í þessum leik. Nú þurfum við að eiga annan slíkan leik á miðvikudaginn þegar Breiðablik kemur í heimsókn. Ef við vinnum þann leik er allt útlit fyrir æsilega lokaumferð.

 

FH-liðið barðist grimmilega í leiknum og léku frábæran fótbolta. Vörnin var að vísu um 20 mínútur að finna taktinn en eftir það var hún fín. Það er erfitt að taka einstaka menn út eftir svo góða frammistöðu hjá liðinu en það verður að segjast að Davíð Þór Viðarsson var frábær í leiknum. Skilaði boltanum nær alltaf á samherja og vann gríðarlega vel á miðjunni. Tryggvi Guðmundsson notaði alla sína reynslu, klókindi og keppnisskap á meistaralegan hátt. Hann t.d. bjó til þriðja og síðasta markið með gífurlegri ákveðni.

Aðrar fréttir