FH-ingar Íslandsmeistarar 2012

FH-ingar Íslandsmeistarar 2012

FH-ingar tryggðu sér í gær sjálfan Íslandsmeistaratitilinn í fótbolta í sjötta skipti í sögunni  á Samsung-vellinum í Garðabæ er liðið gerði 2-2 jafntefli við Stjörnumenn. FH-ingar hafa nú ellefu stiga forystu í Pepsí-deild karla þegar þrjár umferðir eru enn eftir og því ljóst titillinn fer í Krikann.

Leikurinn í gær var hörkuspennandi. Stjörnumenn komust yfir með marki Halldórs Orra Björnssonar en Albert Brynjar Ingason jafnaði metin skömmu síðar með góðu skallamarki. Á 81. mínútu kom Atli Guðnason FH yfir með glæsilegu marki eftir góða sendingu frá Pétri Viðarssyni og ætlaði allt um koll að keyra í stúkunni. Mark Doninger jafnaði fyrir Stjörnuna í blálokin en það kom ekki að sök; FH-ingar voru orðnir Íslandsmeistarar á ný.

Fagnaðarlætin voru að vonum mikil að leik loknum bæði inni á vellinum og í stúkunni enda árangurinn í sumar magnaður. 42 stig komin í hús og því leiddi Gunnleifur Vignir Gunnleifsson, fyrirliði liðsins, leikmenn og stuðningsmenn í 42 FH-hrópum í lok leiks eins og löng hefð er fyrir.

FH.is óskar leikmönnum, þjálfurunum og FH-ingum öllum til hamingju með titilinn!

Aðrar fréttir