FH-ingar komu, sáu og sigruðu!

FH-ingar komu, sáu og sigruðu!

Það er orðið opinbert, eldra ár 4. flokks karla vann sigur á
Partillemótinu, 2006! Eftir vasklega framgöngu undanfarna daga, báru
þeir sigurorð af liði HK Eskil frá Svíþjóð, sem eru núverandi
Svíþjóðarmeistarar í þessum aldursflokki en áður höfðu þeir slegið út
lið BK Heid sem sigruðu á Partille í fyrra. Strákarnir hafa farið
gjörsamlega á kostum á mótinu og kórónuðu hreint út sagt magnaða
frammistöðu sína með sigri í úrslitaleiknum, 18-16, í hinni stórbrotnu
Lisebergshallen, Laugardalshöll þeirra Partillemanna og var Aron
Pálmarsson valinn maður úrslitaleiksins.

Þessi sigur er enn ein skrautfjöðurin í hinn ansi stóra og litríka hatt
drengjanna, en undanfarin ár hafa þeir unnið nánast allt sem hægt er að
vinna hér á Fróni, ásamt því að leggja land undir fót ekki alls fyrir
löngu og bera sigur úr býtum á Norden Cup, óopinberu Norðurlandamóti
unglingaliða í handknattleik. Það er því nokkuð ljóst að hin rómaða
Svíagrýla sem hefur háð A-landsliði okkar Íslendinga er heldur betur að
snúast við, því eins og nafnið gefur til kynna, var Norden Cup einnig
haldið í Svíþjóð.

En þrátt fyrir frábæran árangur eldra árs drengjanna, verður líka að
hrósa öllu okkar fólki sem hélt út til Svíþjóðar til þátttöku í mótinu
fyrir vasklega framgöngu, en bæði 3.fl. karla sem og yngra ár 4.
flokksins komust áfram í úrslitakeppni mótsins og 4. flokkur kvenna
komst áfram í B-úrslitin þar sem þær stóðu sig vel og duttu að lokum út
í 8-liða úrslitunum með einu marki. Einnig verður að minnast á hlut þjálfara, fararstjóra, foreldra og allra þeirra sem komu að þessari mögnuðu ferð og lögðu hönd á plóginn við að gera hana að veruleika.

Þar sem nú er að taka við tími uppbyggingar á ný innan
handknattleiksdeildar Fimleikafélagsins, hljóta menn að vera nokkuð
bjartsýnir upp á framtíðina að gera, því nú fer að bresta á að þessir
piltar fari að láta sjá sig inni á vellinum með meistaraflokki karla.
Þeir hafa svo sannarlega getuna og á komandi árum munu þeir án efa
leiða FH upp þar sem félagið á heima…á meðal þeirra bestu.

Svíþjóðarfararnir eru síðan væntanlegir heim á morgun og má reikna með
því að einhverskonar móttökuathöfn verði reiðubúin í Krikanum, en
tímasetningin á henni verður þá betur auglýst á morgun.

Áfram FH!

Aðrar fréttir