FH-ingar lentu í öðru sæti í 3. flokki

FH-ingar lentu í öðru sæti í 3. flokki

Leikurinn var ekki nema tveggja mínútna gamall þegar Þórsarar náðu forystunni. Þeir fengu aukaspyrnu við vítateigshorn og sendu fastan bolta með vindinum í gegnum þvöguna og í bláhornið.

FH-ingar létu þetta ekki á sig fá og tóku öll völd á vellinum og létu boltann ganga vel manna á milli. Aron Pálmarson jafnaði leikinn á 20. mínútu með laglegu skoti utan úr vítateig.

FH-ingar áttu þarna að láta kné fylgja kviði og bæta við öðru marki en í staðinn skoruðu Þórsarar afar ódýrt mark á 30. mínútu. Fyrirgjöf utan af kanti sigldi framhjá tveimur varnarmönnum FH og til sóknarmanns Þórs sem hamraði boltann í þaknetið.

Annað aulalegt mark kom rétt fyrir leikhlé. FH-ingum mistókst að hreinsa almennilega frá eftir hornspyrnu og Þórsarar náðu að pota boltanum í netið úr þvögunni. Þarna voru FH-ingar sofandi á verðinum, það vantaði að ráðast á boltann og koma honum í burtu.

1-3 fyrir Þór í hálfleik.

FH-ingar hófu seinni hálfleik með látum og á fyrsta stundarfjórðungnum fengu FH-ingar þetta 5-6 dauðafæri en einhvern veginn vildi boltinn ekki yfir línuna. FH-ingar léku mun betur í seinni hálfleik og má segja að leikurinn hafi farið fram á vallarhelmingi Þórsara. Strákarnir létu boltann nú ganga í færri snertingum en í fyrri hálfleik voru menn að klappa boltanum of mikið á stundum.

En þrátt fyrir ótal skot og hornspyrnur náðu FH-ingar ekki að koma boltanum í netið og leikurinn fjaraði út enda mikið rok og boltinn meira eða minna út af vellinum. Það er umhugsunarefni fyrir KSÍ að á úrslitaleik í 3. flokki karla séu aðeins tveir boltakrakkar sem varð þess valdandi að sífelldar tafir urðu á leiknum. Ekki bætti úr skák að dómari leiksins sá sig knúinn til að flauta á allt og ekkert og ég held að ég hafi sjaldan séð jafnmörg sóknarbrot í einum leik.

FH-ingar voru mjög svekktir með tapið enda mega þeir vera það. Þeir voru klárlega betra liðið úti á vellinum en það þýðir ekki að gefa þrjú ódýr mörk og ætlast til að vinna úrslitaleik.

Við óskum Þórsurum að sjálfsögðu til hamingju með titilinn. Þeir eru með marga spræka stráka og baráttuglatt lið sem nýtti sín færi.

Þrátt fyrir tapið er ég mjög sáttur við strákana. Þeir lögðu sig alla fram í þennan leik eins og alla aðra en stríðsgæfan var ekki með okkur að þessu sinni. Strákarnir hafa vaxið mjög sem lið og einstaklingar, spilað fallegan fótbolta, unnu A-deild og skoruðu flest mörk allra liða. Það var vissulega skarð fyrir skildi að í dag vantaði markahrókinn Brynjar Benediktsson sem meiddist í undanúrslitaleiknum.

Við þjálfararnir viljum þakka öllum hópnum, bæði A- og B-liðinu fyrir frábært tímabil. Það er ekki nokkur vafi að í þessum hópi eru margir strákar sem eiga framtíðina fyrir sér.

Aðrar fréttir