FH-ingar ljúka árinu með sigri!

FH-ingar ljúka árinu með sigri!

Í kvöld tóku FH-ingar á móti HK-ingum í síðasta deildarleik ársins hjá liðinu. Mikilvægi leiksins var ótvírætt, fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum og það var því mikilvægt að ná sigri fyrir bæði lið – en sæti í deildarbikarnum var m.a.s. í húfi.


Pálmar – frábær milli stanganna í kvöld

FH-ingar mættu mjög einbeittir til leiks og voru með leikinn í höndum sér frá upphafi. Varnarleikur liðsins var góður og endurspeglaðist það sérstaklega í því hversu illa Ólafi Bjarka Ragnarssyni gekk að komast í takt við leikinn – en hann skoraði einungis 4 mörk í leiknum. Þá var Pálmar Pétursson frábær á milli stanganna og varði hann 17 skot í leiknum, þar af mörg dauðafæri.


Ásbjörn – 12 mörk segja allt sem segja þarf

Sóknarleikur liðsins gekk ágætlega framan af og var Ásbjörn Friðriksson í algjöru lykilhlutverki þar, en hann skoraði 12 mörk – meira en helming marka liðsins. Ási fór vægast sagt á kostum og tóku HK-ingar hann úr leik síðustu 10 mínútur leiksins. Það var einmitt á þeim kafla þar sem að HK-ingar byrjuðu að sækja aðeins á FH-ingana, en okkar menn héldu þó haus og unnu að lokum tveggja marka sigur. Örn Ingi Bjarkason var einnig sterkur í sóknarleiknum, hann sótti vel á markið og fiskaði nokkur vítaköst sem Ásbjörn skoraði svo að sjálfsögðu úr. Gríðarlega gott fyrir liðið að endurheimta Össa, en hann var að stíga upp úr erfiðum meiðslum.

Leikur liðsins í heild var fínn og er gott veganesti inn í restina af mótinu. Nú tekur við langt frí frá keppni, en næstu leikir í deildinni eru einhvern tímann í lok janúar eða byrjun febrúar, og gefst okkar mönnum þá tími til þess að pússa sig ennþá betur saman fyrir lokasprettinn í N1-deildinni. Mjög gott að ljúka árinu með góðum sigri á HK.

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 12, Örn Ingi Bjarkason 3, Sigurgeir Árni Ægisson 3, Hjörtur Hinriksson 2, Benedikt Kristinsson 1, Ólafur Guðmundsson 1.

Aðrar fréttir