FH-ingar sigursælir á Viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar og ÍBH

FH-ingar sigursælir á Viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar og ÍBH

Arna Stefanía Guðmundsdóttir frjálsíþróttakona úr FH var valin íþróttakona Hafnarfjarðar 2017. Arna Stefanía varð Íslandsmeistari á árinu og bikarmeistari með kvennaliði FH. Hún er landsliðskona í frjálsíþróttum og tók þátt í alþjóðlegum mótum með góðum árangri. Arna Stefanía sigraði á Smáþjóðaleikunum 2017 í 400m grindahlaupi í kvennaflokki. Hún varð Norðurlandameistari kvenna í 400m hlaupi innanhúss og vann brosverðlaun á Evrópumeistaramóti 22 ára og yngri í 400m grindahlaupi.

Arna Stefanía og Sigurður Ólafsson fengu enn fremur sérstaka viðurkenningu fyrir Norðurlandameistaratitla sína á árinu, þ.e. Arna fyrir 400m hlaup innanhúss og Sigurður fyrir stangarstökk öldunga.

Frjálsíþróttadeildin fékk svo að lokum afhentan ÍSÍ bikarinn fyrir glæsilegan árangur á árinu en bikarinn er afhentur því félagi eða íþróttadeild sem skarar framúr í félagslegri uppbyggingu og íþróttalegum árangri. Frjálsíþróttadeildin á flesta Íslandsmeistaratitla í Hafnarfirði 2017 eða 114 og koma þeir úr öllum aldurshópum beggja kynja sem sýnir breiddina í deildinni. Deildin hefur farið reglulega með alla aldurshópa í æfinga- og keppnisferðir erlendis og verið í fararbroddi í mótahaldi í frjálsíþróttum á Íslandi.

 

Arna Stefanía Guðmundsdóttir íþróttakona FH og Hilmar Örn Jónsson íþróttakarl FH

Arna Stefanía og Hilmar Örn voru á gamlársdag útnefnd sem íþróttkona FH og íþróttakarl FH á Gamlársdag. Hver deild fimleikafélagsins tilnefnir karl og konu og urðu þau tvö hlutskörpust fyrir frábæran árangur 2017.

Arna Stefanía varð Íslandsmeistari á árinu í fjölda greina og bikarmeistari með kvennaliði FH. Hún er landsliðskona í frjálsíþróttum og tók þátt í alþjóðlegum mótum með góðum árangri. Hún sigraði m.a. á Smáþjóðaleikunum 2017 í 400m grindahlaupi. Hún varð Norðurlandameistari kvenna í 400m hlaupi innanhúss og vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramóti 22 ára og yngri í 400m grindahlaupi. Arna Stefanía náði í 1133 afreksstig samkvæmt alþjóðlegri stigatöflu og er með lágmark á EM utanhúss í 400m grindahlaupi sem fer fram í Berlín á næsta ári.

Hilmar Örn átti einstakt ár þar sem hann tók þátt í heimsmeistaramóti í sleggjukasti karla og náði góðum árangri. Hann tók jafnframt þátt í Evrópumeistaramóti 22 ára og yngri þar sem hann komst í úrslit. Þá keppti hann einnig á Bandaríska háskólameistaramótinu þar sem hann varð í fjórða sæti. Hilmar Örn varð einnig svæðisháskólameistari (ACC Championships) fyrir Virginíuháskólann sem hann hefur keppt fyrir síðastliðin tvö ár. Hilmar Örn er yngsti Íslendingurinn sem hefur kastað sleggjunni yfir 70m og náði 1077 stigum semkvæmt alþjóðlegri stigatöflu. Hilmar Örn var einnig valinn Frjálsíþróttakarl Frjálsíþróttasambands Íslands.

Aðrar fréttir