FH-ingar skelltu í lás á Hlíðarenda | 12 marka sigur á Val í gærkvöldi

Í kvöld mættust liðin sem kepptu til úrslita um þann stóra fyrir minna en hálfu ári. Í kvöld mættust einu tvö liðin í deildinni sem voru ennþá taplaus. Í kvöld fóru Hafnfirðingar á Hlíðarenda… og fengu á sig fimm mörk í fyrri hálfleik.

FH-vörnin, maður minn. / Mynd: Jói Long

Ég ætla bara að endurtaka þetta svo ég trúi þessu öruglega sjálfur: FH fór í heimsókn til ríkjandi Íslands-og bikarmeistara og fékk á sig fimm mörk í fyrri hálfleik. Sýndu mér speking sem segist hafa séð þetta fyrir og ég skal sýna þér lygara.

Fyrir leik hefði þetta átt að vera jafn og spennandi leikur. Bæði lið eins og áður sagði taplaus, leikir liðanna í fyrra voru alla jafnan æsispennandi og svo var það þetta með vítakeppnina í Rússlandi, einhverjir höfðu áhyggjur af því að það stórfurðulega mál myndi hafa áhrif á hugarfar FH-inga. Sú reyndist aldeilis ekki raunin.

Til að byrja með stefndi í þann hörkuleik sem búist var við. Bæði lið spiluðu hörku vörn fyrstu tíu og það var ekki fyrr en á níundu mínútu sem annað mark leiksins var skorað, þegar Orri Freyr Gíslason jafnaði í 1-1 eftir að Einar Rafn hafði komið FH í eitt núll. Næstu fimm var jafnræði með liðunum, en í stöðunni 4-5, þegar korter var búið, skelltu FH-ingar í lás. Það sem eftir lifði hálfleiksins, skoruðu Hlíðarenda piltar eitt mark. Eitt.

FH-vörnin þetta korter, og framan af í seinni hálfleik, var algjört augnakonfekt (nema þú haldir með Val) þar sem hver einasti maður barði frá sér og varðist af stakri prýði. Það þarf sérstaklega að hrósa Ísaki og Ágústi  fyrir varnarleik þeirra á þessum kafla, þó að allir hafi verið virkilega góðir. Á sama tíma og þetta var að gerast FH megin byrjaði sóknin að finna lausnir á Valsvörninni og áður en menn vissu af var FH komið með 10 marka forystu. Lokamarkið var rándýrt, en þegar FH-ingar voru einum færri og lítið eftir á klukkunni hlóðu strákarnir í einn sirkus úr vinstra horninu áður en flautan gall. Stórfenglegur hálfleikur á enda og FH-ingar fóru skælbrosandi inn í hléið. FH-vörnin mun fá megnið af hrósinu næstu daga en ég vil vekja athygli á því að þrátt fyrir frábæra vörn voru aðeins tvö af fimmtán mörkum í fyrri hálfleik úr hraðaupphlaupum, sóknin leysti bara varnarleik Vals mjög vel.

Óðinn Þór var markahæstur í FH-liði, þar sem að markaskorið dreifðist annars mjög vel / Mynd: Jói Long

Ef einhver hafði áhyggjur af því að strákarnir myndu slaka á í hálfleik reyndust þær áhyggjur óþarfi. FH-ingar byrjuðu á að gefa aðeins í, komust mest í 13 marka forystu en þá loks fóru hlutirnir að ganga hjá heimamönnum, sem skipti bara engu máli. Minnstur var munurinn tíu mörk í seinni hálfleik og loka tölur voru 33-21 fyrir FH. Seinni hálfleikur hálfgert formsatriði en hann vannst samt með tveim mörkum.

Hvað segir maður annars eftir svona leik? Þetta var bara veisla, besti leikur liðsins í vetur án nokkurs vafa. Hver einasti leikmaður liðsins lék vel, markaskoruninn dreifðist vel (þó Óðinn bæri af í henni með 9 mörk) og ef vörnin heldur þessum dampi munu ekkert lið hafa gaman af því að mæta henni. FH er á toppi deildarinnar, einu stigi á undan Valsmönnum og við eigum leik til góða. Hann verður spilaður miðvikudaginn 1. nóvember gegn Fjölni og við ætlum öll að mæta og halda áfram að njóta þess að styðja þetta geggjaða lið!

VIÐ ERUM FH!

-Ingimar Bjarni

Mörk FH: Óðinn Þór Ríkharðsson 9, Ágúst Birgisson 5, Arnar Freyr Ársælsson 4, Ásbjörn Friðriksson 4/2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Einar Rafn Eiðsson 3, Jóhann Birgir Ingvarsson 2, Jón Bjarni Ólafsson 2, Þorgeir Björnsson 1.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 14.

Aðrar fréttir