FH-ingar sköruðu Fram-úr í Safamýrinni | Akureyri í heimsókn á sunnudag

Þessi pása gat varla liðið nógu hratt! Eftir frábæran endi á síðasta ári hefja strákarnir okkar leik í Olísdeildinni á tveimur leikjum með þriggja daga millibili. Í gærkvöldi lögðu strákarnir Framara að velli með sannfærandi hætti í Safamýrinni, og á sunnudag er fyrsti heimaleikur liðsins á árinu þegar að Akureyringar mæta í Krikann.

Stórsigur í Safamýri
Strákarnir mættu einbeittir til leiks og tóku frumkvæðið strax í byrjun. Með því að skora fyrstu þrjú mörk leiksins sýndu leikmenn FH-liðsins að þeir voru ekki mættir í Safamýrina til að bora í nefið, heldur átti að sækja tvö stig. Fyrstu varnarsett liðsins voru afar góð og fundu Framarar varla glufur á sterkri og hreyfanlegri vörn FH-liðsins. Hornamenn Framara nýttu þó færi sín vel þegar þeir fengu þau, og því náðu FH-ingar ekki að slíta Fram-liðið frá sér fyrr en raun bar vitni.

Þegar að stoppin komu voru FH-ingar hins vegar duglegir að refsa á hinum enda vallarins, og þegar flautað var til leikhlés var forysta okkar manna orðin 5 mörk. Ljómandi góð staða á erfiðum útivelli, en þó hefði hún getað verið ennþá betri. Nóg áttu strákarnir inni!

FH-ingar héldu áfram góðri spilamennsku í síðari hálfleik og skoruðu mikið af mörkum eftir fallegar sóknir. Eftir 7 mínútna leik í síðari hálfleik var munurinn á liðunum orðinn 7 mörk og útlitið orðið ansi gott. Framarar voru þó ekki á þeim buxunum að gefast upp og góður kafli af þeirra hálfu sá til þess að þegar korter var til leiksloka var munurinn á liðunum ekki nema 4 mörk á nýjan leik. Einhvern tímann hefði maður ef til vill óttast, að þessi mótbyr hefði orðið til þess að andstæðingurinn hefði tekið leikinn yfir og saxað enn frekar á forystu okkar.

Það var þó ekki að fara að gerast í gærkvöldi. Fagmennskan skein af FH-liðinu, sem steig upp og kláraði leikinn af öryggi á síðasta korteri leiksins. Að lokum vannst flottur 10 marka sigur, 28-38, og kærkomin tvö stig í toppbaráttunni unnin.

Í heild sinni lék FH-liðið afar vel í Safamýrinni. Liðið skoraði heil 38 mörk, og dreifðist markaskorið vel á leikmenn liðsins. Þá var varnarleikurinn að virka vel á löngum köflum í leiknum, líkt og hefur verið í síðustu leikjum liðsins, og einnig átti Ágúst Elí fínasta leik milli stanganna með 16 skot varin.

Arnar Freyr átti toppleik gegn sínum gömlu félögum.

Arnar Freyr átti toppleik gegn sínum gömlu félögum.

Arnar Freyr Ársælsson sýndi allar sínar bestu hliðar í leiknum í gær, en hann skoraði 7 mörk líkt og Einar Rafn Eiðsson og voru þeir þar með markahæstir. Fyrir utan það að nýta færin sín í horninu afar vel þá átti Freysi frábæran dag í vörninni. Hann fékk það verðuga verkefni að halda Arnari Birki Hálfdánssyni, besta leikmanni Safamýrarpilta, í skefjum. Líkt og einum allra besta varnarmanni deildarinnar sæmir, þá lokaði Arnar Freyr algjörlega á nafna sinn Birki. Ómetanlegt framlag til sigurs FH-liðsins.

Mörk FH: Arnar Freyr Ársælsson 7, Einar Rafn Eiðsson 7/1, Óðinn Þór Ríkharðsson 5, Jóhann Karl Reynisson 4, Ásbjörn Friðriksson 4, Jóhann Birgir Ingvarsson 4, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Ágúst Birgisson 3, Þorgeir Björnsson 1.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 16.

Í heildina litið flottur leikur sem gefur góð fyrirheit fyrir komandi verkefni.

En þá að andstæðingi okkar á sunnudag.

FH - Akureyri 5/2/17

Akureyri

Norðanmenn byrja árið með miklum krafti, en þeir fengu öflugt lið Vals í heimsókn í gærkvöldi og lögðu það sannfærandi að velli. Lokatölur voru 27-21 fyrir Norðanmenn, sem hefðu varla getað beðið um mikið betri byrjun á árinu. Ekki síst fyrir þær sakir að Akureyringar luku síðasta ári ekki eins vel og þeir hefðu viljað, en síðustu tveimur leikjum þeirra fyrir hlé lauk báðum með afgerandi tapi.

Akureyri er því í 9. sæti deildarinnar með 13 stig, en í jafnri Olísdeild breytist staða liðanna í sífellu og hefur oft ekki mikið forspárgildi fyrir leiki sem framundan eru (sbr. þá umferð sem fram fór í gær, þar sem neðstu þrjú liðin unnu öll sína leiki). Akureyri hefur staðið í töluverðu brasi vegna meiðsla lykilmanna í vetur, en alltaf sýnt af sér mikla baráttu og átt jafna leiki gegn ,,sterkari” liðum deildarinnar.

Það styrkir Akureyringa að hafa endurheimt Bergvin Þór Gíslason eftir meiðsli, en hann er á góðum degi einn af betri leikmönnum deildarinnar. Bergvin lék sinn fyrsta leik á tímabilinu gegn Val, og skoraði 3 mörk. Mun honum eflaust vaxa ásmegin eftir því sem líður á tímabilið, og er það mikið gleðiefni fyrir Akureyringa og Olísdeildina í heild. Okkar menn munu þó vonandi passa vel upp á hann þegar út á gólf er komið á sunnudag.

Hægri hornamaðurinn og Þróttarinn Kristján Orri Jóhannsson hefur verið allra leikmanna stöðugastur í liði Akureyrar í vetur, en hann er með 4.88 mörk að meðaltali í leik það sem af er. Valsmenn áttu einmitt erfitt með að hemja hann í gærkvöldi, en hann skoraði þar 7 mörk og var markahæstur. Vinstri skyttan Karolis Stropus var atkvæðamikill fyrir liðið fram að þeim slæmu meiðslum sem hann lenti í, en Akureyringar fengu aðra góða sendingu frá Litháen fyrir tímabilið – hægri skyttuna Mindaugas Dumcius. Sá hefur sýnt flotta takta það sem af er, og er hann með 4.29 mörk að meðaltali í leik. Flott skytta, sem verður að verjast vel.

Fyrri viðureignir liðanna

Olísdeildin: Akureyri 24 – 24 FH (11-14), 27. október 2016
Coca-Cola bikarinn: Akureyri 26 – 27 FH (14-17), 5. desember 2016.

Viðureignir liðanna á tímabilinu hafa verið æsispennandi það sem af er. Í báðum hafa FH-ingar verið með yfirhöndina lengst af, og farið inn í hálfleik með þriggja marka forskot, en alltaf hafa Akureyringar komið til baka og haldið lífi í leiknum. Deildarleiknum lauk með jafntefli, eftir að FH-ingar höfðu mest náð 5 marka forskoti í síðari hálfleik, en bikarleiknum náðu okkar menn að loka á fagmannlegan máta.

Leikur FH og Akureyrar fer, eins og áður segir, fram á sunnudag (5. febrúar) og er hann á besta tíma, kl. 16:00. Það er því tilvalið að taka alla fjölskylduna með í Krikann og styðja við strákana okkar, sem koma rosalega vel undan hléi og eru til alls líklegir það sem eftir lifir móts. Við viljum sjá allt okkar fólk í stúkunni, og eins og vitað er þá getum við stuðningsmennirnir virkað líkt og aukamaður á velli. Höldum sigurgöngunni áfram!

Við erum FH!

Aðrar fréttir