FH-ÍR – umfjöllun

FH-ÍR – umfjöllun


   32-27  

Fyrri hálfleikur

Við byrjuðum leikinn afar vel í gær. Vörnin small frábærlega í byrjun, vorum að ná að brjóta á stöðum ÍRingum með agressívri 3-2-1 vörn með Óla Guðmunds afar öflugan sem indíána fyrir framan. Leo var sprækur og gott að fá kallinn inn eftir meiðsli. Sóknin var einnig að virka mjög vel. Leikmenn voru hreyfanlegir og spiluðu boltanum vel á milli sín. Aron var ógnandi í byrjun, stjórnaði sókninni vel og dró menn í sig og við það opnaðist fyrir skyttur okkar Arnar og Val. Aron sallaði líka töluvert í byrjun með skotum fyrir utan og með gegnumbrotum. ÍRingar réðu lítið við hann. Í byrjun vissu ÍRingar ekki sitt rjúkandi ráð og þessi kafli kom okkur í stöðuna 6-2 og við náðum síðan 10-4 forystu um miðjan hálfleikinn. Þá kom sígilt bakfall hjá okkur og ekki í fyrsta skipti í vetur. ÍRingar ná að jafna 11-11. Á þessum kafla kemur ákveðin deyfð, menn hætta að berjast af viti í vörninni, markvarslan dettur niður og í sókninni eru menn að taka vitlausa sénsa, skjóta úr lélegum færum og eru hættir að spila upp á hvorn annan. Það sem eftir lifir hálfleiksins er jafnt á öllum tölum og hálfleikstölur voru 14-14.

Seinni hálfleikur

Menn voru ekkert sérstaklega sáttir að glutra þessari góðu forystu í fyrri hálfeik og það kom ekkert annað til greina en að stíga á bensínið í botn og klára þenna leik á okkar heimavelli. Við byrjuðum af krafti og komumst í 3ja marka forystu 17-14. Seinni hálfleikur spilaðist ágætlega hjá okkur. Við héldum ÍRingum í þægilegri fjarlægð og héldum þetta 3-6 marka forystu út hálfleikinn. Vörnin var ágæt framan af hálfleiknum. Óli Guðmunds hélt sínu striki í vörninni og spilaði afar vel. Markvarslan lá niðri mestan hluta hálfleiksins en Danni kom inn fyrir Leo í byrjun og náði sér ekki alveg á strik. Þegar Leo kom svo inn aftur tók hann nokkra mikilvæga bolta. Sóknin var í fínu lagi, Óli Guðmunds kom inn í vinstri skyttuna í þeim og fór á kostum rétt eins og í vörninni. Var án efa maður leiksins í gær. Skoraði 10 mörk í öllum regnbogans litum og varnarmenn og markvörður ÍRinga áttu engin svör. Menn spiluðu þetta af skynsemi, héldu ró sinni þegar Aron var tekinn úr umferð og við það myndaðist bara meira pláss sem menn nýttu sér vel. Við kláruðu þetta af öryggi og lokatölur, eins og áður sagði 32-27 okkur í vil. Frábær sigur!

Niðurstaðan

Eins og áður sagði bar Ólafur Guðmundsson af í þessum leik. Mikill baráttuhugur í stráknum, lét ÍRinga engan frið fá í sókninni, náði í ótal fríköst, vann nokkra bolta af harðfylgi, og skoraði nokkur úr hraðaupphlaupum. Í seinni hálfleik raðaði hann svo mörkum í skyttunni og hélt sínu striki í vörninni. Frábær innkoma hjá strák. Aron átti mjög fínan fyrri hálfleik í sókninni, spilaði vel upp á menn og sallaði nokkrum mikilvægum. Honum óx síðan ásmegin í vörninni og var klókur. Steini stjórnaði vörninni síðan mjög vel. Annars var liðsheildin afar góð, menn voru tilbúnir í leikinn, “tóku afstöðu” eins og þjálfarinn orðar það hnitmiðað og það skilaði sér í afar mikilvægum og góðum sigri. Því er nokkuð ljóst að við FHingar trónum á toppnum! Staður sem við ætlum að vera framvegis.

Mörkin skoruðu (mörk/skot(víti))

<

Aðrar fréttir