FH og Kiel ná samningum

FH og Kiel ná samningum


            

Handknattleiksdeild
FH er það mikil ánægja að tilkynna að náðst hafa samningar við stórlið
Kiel um að Aron Pálmarsson gangi til liðs við félagið næsta sumar.  Það
hefur ekki farið framhjá neinum að Aron skrifaði undir sinn samning nú
fyrir helgi og nú hafa samningar milli félaganna tekist.

Samningur FH og Kiel er um margt tímamótasamningur.  Hann kveður ekki
aðeins á um ákveðna fjárhæð til FH heldur, og ekki síður, um samskipti
og samstarf í náinni framtíð þar sem FH fær tækifæri til að senda sína
þjálfara til Kiel í „námsferðir“ og jafnvel unga og efnilega leikmenn í
lengri og styttri tíma.  Einnig má segja að með þessum samningi sé FH
orðin eins konar gátt fyrir Kiel inn í íslenskan handknattleik sem geti
þannig fylgst betur en ella með ungum og upprennandi leikmönnum í
framtíðinni.

FH lagði ríka áherslu á þessa þætti í viðræðum félaganna og þannig
kemur félagið til með að njóta góðs af félagaskiptum Arons til lengri
tíma litið.  Þó skal tekið fram að fjárhagslegur ávinningur FH er mjög
ásættanlegur og byggist að hluta til á framgöngu Arons á næstu árum.

Með samningi þessum er FH komið í náin samskipti við eitt allra stærsta
handknattleiksfélag heims, samskipti sem byggjast á gagnkvæmu trausti
og virðingu aðila.  Við hjá FH erum afar stolt af að hafa náð slíkum
samningi við þennan risa í handknattleiksheiminum.

Aðrar fréttir