FH – Selfoss Aðdragandi

FH – Selfoss Aðdragandi

http://content.answers.com/main/content/wp/en/thumb/f/f4/100px-Fimleikafelag_hafnafjordur.gif        The image “http://www.123.is/helgadogg/upload/Bloggmyndir4/selfoss.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

FH  –  Selfoss

Strandgata, sunnudagurinn 24. febrúar 2008

Viðureignir okkar við Selfyssinga í vetur hafa verið góðar af okkar hálfu. Sannfærandi sigrar í báðum leikjum og klárlega markmið að halda sigurgöngunni áfram gegn þeim. Annars hafa Selfyssingar leikið alveg ágætis mót. Þeir hafa unnið 8 leiki, gert 2 jafntefli og tapað 4. Hafa meðal annars unnið Víkinga tvisvar mjög sannfærandi, tekið botnliðin Þróttara og Hauka 2 og yfirleitt gengið vel gegn Gróttu. Þeir hafa aftur á móti ekki riðið feitum hesti í viðureignum gegn toppliðunum tveimur. Við FHingar erum aftur á móti á toppnum sem fyrr, aðeins tapað 1 leik og gert 2 jafntefli. Tap varð gegn Víkingi og gerðum áður jafntefli við þá og ÍR.

Síðasti leikur við Selfoss
Við spiluðum síðast við Selfoss fyrir austan þann 13. desember síðastliðinn. Áttum við þar að mínu mati okkar besta leik í vetur. Við vorum mjög áræðnir í sókn og spiluðum hörkuvörn með Óla Guðmunds í fararbroddi. Liðið seig hægt og bítandi fram úr ráðvilltum Selfyssingum sem áttu fá svör og voru reyndar heppnir að vera aðeins 12-17 undir í hálfleik. Orrahríð okkar hélt áfram í seinni og komumst við mest í 8 marka forystu 18 – 26. Það var reyndar á þeim tímapunkti sem að ákveðið reynsluleysi gætti hjá mönnum og við missum Selfyssinga heldur nálægt okkur, eða niður í 2 mörk 26-28. Við kláruðum þó síðustu 5 mín með miklum sóma og unnum sannfærandi með 4 mörkum 30-34.

Undirbúningur
Menn komu vel undan Þróttaraleik frá föstudeginum, hafa verið að æfa af krafti alla vikuna, eru vel stemmdir og hafa haft gaman af því sem þeir eru að gera. Það er því mikil eftirvænting í liðinu fyrir leiknum á sunnudag.

Ástand
Ástand er í fínu lagi. Teddi er reyndar að ná sér eftir ökklameiðsli. Heiðar er enn meiddur í öxl og sér ekki fyrir að verða meira með á leiktíðinni. Aðrir eru sprækir og glaðir.

Hópurinn
Hópurinn verður tilkynntur í kvöld eða á morgun.

Selfoss
Selfyssingar hafa verið á siglingu og unnið síðustu 4 leiki sína í deildinni eða alla leiki eftir að þeir töpuðu fyrir okkur í desember. Þeir hafa bætt sig mjög síðan þá og því um gífurlega erfiðan leik að ræða. Helstu hetjur Selfyssinga í vetur hafa verið ungstirnin fyrir utan, vinstra megin Atli Kristinsson og hægra megin Ragnar Jóhannsson sem nota bene skoraði 13 mörk gegn Víkingum í síðasta leik þeirra. Þeir eru svo með snjallan og áræðinn línumann í Michali Dostalik og ef þeir hleypa stórskyttunni Ramunas Mikalonis að getur hann verið illviðráðanlegur. Við þurfum að ná hraða upp í okkar leik í sókninni, vera hreyfanlegir, frjóir og áræðnir. Í vörninni þarf að mæta skyttum þeirra út en hafa samt sem áður vara á línumanni þeirra. Því er mikilvægt að samskipti milli manna sé í lagi og menn tilbúnir að fara út og brjóta og einnig vera tilbúnir að klára mann ef samherjinn er búinn að missa af honum.

<img src="http://render-2.snapfish.com/render2/is=Yup6Ga0%7C%3Dup6RKKt%3

Aðrar fréttir