FH – St. Pétursborg. Upphitun Ingimars Bjarna

Þá er komið að annarri umferð í EHF bikarnum. Eftir frækinn sigur á Dukla Praha bíður stákunum hið rússneska lið St. Pétursborgar. Fyrri leikurinn fer fram hér heima, á laugardaginn klukkan 17, var einhver að tala um skyldumætingu eða? Þetta er einfaldlega stærsti leikur tímabilsins og það er geggjað að sjá liðið vera að taka þátt í svona stórleik.

Rússneskur handbolti

Rússar byrjuðu að spila handbolta snemma á tuttugustu öldinni. Þróun íþróttarinnar átti sér að mestu stað í stórborgunum, Moskvu, Leningrad (sem í dag heiti Pétursborg og er heimaborg mótherja FH), Sverdslovsk og víðar. Til að byrja með spiluðu Rússar tvær gerðir handbolta, annars vegar sjö manna og síðan 11 manna handbolta, sem lognaðist útaf um síðustu öld.

Eins og í öðru má skipta sögu rússnesks handbolta, í fyrir og eftir fall Sovétríkjanna. Árið 1955 var stofnað Handknattleikssamband Sovetríkjanna sem bar ábyrgð á umsjón og þróun leiksins innan landamæra Sovétríkjanna. Þegar hæst bar rak sambandið meira en hundrað skóla og klúbba í borgum og bæjum landsins sem sáu um að finna og þjálfa efnilega handboltamenn. Allar helstu stjörnur handboltans á þessum árum komu upp í gegnum þetta kerfi sem lagðist af þegar Sovétríkin féllu.

Árið 1989 var Handknattleiksamband Rússlands stofnað og skömmu seinna núverandi deild. Á Ólympíuleikunum 1992 var reyndar teflt fram liði sem kallað var Samveldi sjálfstæðra ríkja. sem innhélt íþróttamenn frá 15 fyrrum Sovétríkjum. Eftir það fór rússneska landsliðið af stað og gekk í raun mun betur en á Sovéttímanum en á tíunda áratugnum náði landsliðið átta verðlaunapeningum á stórmótum.

Torgavanov var magnaður línumaður.

St. Petursburg

Rússneska deildin var stofnuð árið 1993 og lið Pétursborgar fór með sigur úr bítum það árið, en síðan þá hefur lið Chekhovskie Medvedi (Birnir Chekovs, aðallið Moskvuborgar) nánast einokað titilinn. Síðan að Pétursborg vann árið 1993 hefur Moskvuliðið hampað titlinum hvert einasta ár nema fjögur. Fyrirkomulagið er mjög svipað og hér heima, 12 lið, átta liða úrslitakeppni eftir að deild líkur ásamt því að fjögur lið þurfa að spila um tvö fallsæti. Síðan Pétursborg vann deildina hafa þeir fjórum sinnum verið í öðru sæti, tímabilin 2011-14.

Það var þá sem saga þeirra í Evrópu byrjaði, en St. Pétursborg tók þátt í meistaradeildinni þessi fjögur ár, EHF bikarnum 2014-15, í fyrra voru þeir í Áskorenda bikarnum og núna aftur í EHF bikarnum. Þeir eru semsagt hoknir Evrópureynslu þótt árangurinn sé ekkert til að skála fyrir.

Þjálfarinn er Íslendingum góðkunnugur en það er goðsögnin og Ólympíugullhafinn Dmitri Torgovanov sem að sumum er álitinnf besti línumaður sögunar. Hann á sér mörg áhugamál, t.d. að vinna til verðlauna með rússneska landsliðinu (þar með talið gull og brons á Ólympíuleikunum), safna frímerkjum (óstaðfestur grunur) og að vera þjálfari rússneska landsliðsins. Svo kölluð kempa að dýrustu gerð, sjöundi leikjahæsti leikmaður rússneska landsliðsins með 219 leiki og fjórði markahæsti leikmaður landsliðsins með 689 mörk!

Okkar menn – FH

Eru ekki örruglega allir að njóta þess að horfa á liðið spila þessa dagana? FH er að spila besta handbolta landsins, hafa ekki tapað stigi, hafa skorað flest mörk og eru með næst bestu markatöluna. Eftir frábæran sigur á Haukum í þar síðustu umferð kom smá hikst á liðið. Dýrvitlausir Gróttumenn stóðu í strákunum og voru tíu mínútum frá því að vinna leikin, en okkar menn hrukku í gang og náðu að vinna. Þetta var svo kallaður karaktersigur, og leyfi ég mér að fullyrða að FH hefði ekki unnið sama leik fyrir nákvæmlega ári síðan.

Stærstu fréttirnar af hópnum eru þær að Gísli Þorgeir nálgast leikform. Hann verður líklega ekki tilbúinn í 60 mínútur í leiknum gegn St. Pétursborg en vonandi getur hann byggt á frábærri innkomu gegn Gróttu. Annars vonar maður bara að þessi FH vél haldi áfram að malla, spili sinn bolta og haldi þessu Evrópuævintýri áfram.

Gísli Þorgeir er að nálgast sitt besta form.

Ljóst er að rússneska liðið er töluvert betra en Dukla Praha. Rússarnir hafa spilað síðustu fimm ár í Evrópu, eru með stórstjörnu í brúnni og eru að standa sig vel í hörkudeild í heimalandinu. Þetta verður hrikalega erfiður leikur. Þess vegna ætlum við öll að mæta og styðja strákana frá fyrstu mínútu, þeir eiga stuðninginn skilið. Það verða Kjötkompanís borgarar á grillinu og því um að gera að mæta snemma í Krikann. Koma svo strákar!

VIÐ. ERUM. FH!

-Ingimar Bjarni.

Aðrar fréttir