FH-stelpur lágu í lautinni

FH-stelpur mættu Fylki í kvöld upp í Árbæ. Fyrri leikur liðanna í haust var hnífjafn og æsispennandi og þegar undirritaður mætti í Fylkishöllina í kvöld virtist stefna í svipaðan leik.

Um miðjan fyrri hálfleik var staðan 10-10, FH hafði verið skrefinu á undan en gekk þó erfiðlega að hrista Fylkisliðið af sér. Sóknir FH-liðsins virtust mun erfiðari á meðan að hinum megin gátu leikmenn Fylkis komist inn að 6 metrunum í nær hverri sókn.

Sylvía Björt var markahæst okkar stelpna að þessu sinni með 7 mörk / Mynd: Brynja T.

Þökk sé einstaka töktum í vörninni okkar megin var FH-liðið í forystu 11-10 þegar 5 mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. En eftir að nokkrar sóknir í röð fóru út um þúfur voru Árbæingar skiljanlega komnir með forystu og juku við hana fram að hléi. Staðan í hálfleik 14-11 heimamönnum í vil.

Sóknin byrjaði af krafti í seinni hálfleik og þrumaði Sylvía Blöndal boltanum beint í Hr. Samúel af 10 metrunum á 39. mínútu til að jafna leikinn 17-17. Eitt af þessum IDGAF mörkum sem hún á það til að skora. Því miður fékk liðið á því tímabili tvær tveggja mínútna brottvísanir með stuttu millibili. Fylkisliðið gekk á lagið og voru þær fljótlega komnar í 21-17.

Í framliggjandi 5-1 vörn náðu stelpurnar okkar að koma sér aftur inn í leikinn / Mynd: Brynja T.

Þegar korter var eftir af leiknum skiptum við um vörn sem virtist ætla að svínvirka og munurinn minnkaði í tvö mörk. Elín Rósa, sem hafði leikið sér að vörn FH fram að þessu, vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar Embla var mætt fremst í 5-1. Vörnin varð þéttari og Fylkisliðið átti erfitt með að komast í gegn. Aftur kom þó bakslag vegna tveggja marka brottvísunar og munur fljótlega orðinn aftur fjögur mörk 24-20.

Með fullskipað lið minnkaði FH-liðið muninn í 24-23 þegar fjórar mínútur voru eftir. Aftur misstum við leikmann af velli og þegar lokamínútan hófst var Fylkir yfir 25-23. Embla minnkaði muninn af línunni í 25-24 þegar þrjátíu sekúndur voru eftir og voru stelpurnar mættar í maður á mann vörn af fullri einbeitingu.

Manni varð hugsað til fyrri leiks liðanna í haust þegar að FH nældi sér í jafntefli á lokaandartökunum. Svo, þegar við náðum að stela boltanum með 10 sekúndur eftir á klukkunni, taldi maður stigið svo gott sem komið. FH-liðið geystist í sókn, fjórar á tvær, en þær fóru sér of geyst og endaði boltinn á einhvern ótrúlegan hátt í fæti leikmanns FH. Fylki dæmdur boltinn. Leikur búinn. 25-24 tap.

Markahæst í liði FH að þessu sinni var Sylvía Blöndal, en hún skoraði 7 mörk. Næst henni í markaskorun var Aníta Theodórsdóttir, sem skoraði 5 mörk af línunni. Í markinu varði Ástríður Þóra Viðarsdóttir vel, en hún átti 13 varða bolta að þessu sinni.

Næsti leikur stelpnanna er á miðvikudag, en þær taka þá á móti Gróttunni í Mekka. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Gimmi

Mörk FH: Sylvía Björt Blöndal 7, Aníta Theodórsdóttir 5, Britney Cots 3, Fanney Þóra Þórsdóttir 3, Diljá Sigurðardóttir 2, Ragnheiður Tómasdóttir 2, Aþena Arna Ríkharðsdóttir 1, Embla Jónsdóttir 1.
Varin skot: Ástríður Þóra Viðarsd. Scheving 13.

Aðrar fréttir