FH-U með annan sigur sinn í röð

FH-U með annan sigur sinn í röð

Ungmennalið FH tók á móti Gróttu í öðrum leik sínum í 1.deild karla í handbolta en liðin mættust í krikanum á föstudag. FH vann góðan sigur á Víkingum á útivelli í 1.umferð en Grótta vann ÍR í Austurbergi á sama tíma. Það var klárt að FH myndi selja sig dýrt en Gróttu var spáð toppsætinu í deildinni á meðan FH var spáð sjötta sætinu.

Þegar liðin gengu út á gólf var alveg augljóst að þarna voru menn að mæta drengjum eða þannig leit þetta út. En þegar leikurinn hófst sá maður að þessir drengir kunna handbolta. FH komu miklu sterkari til leiks og komust í 4-1 og 6-3 snemma í fyrri hálfleik en Dóri (Halldór Guðjónsson) skoraði fjögur fyrstu mörk FH. Siggi (Sigurður Örn Arnarsson) varði vel í byrjun leiks og lokaði búrinu, mikið efni þar á ferð og gott að fá hann aftur heim í krikann. Geir Sveinssyni þjálfara Gróttu leist ekkert á blikurnar í fyrri hálfleik og tók leikhlé í stöðunni 6-4 fyrir FH. Eftir leikhlé hertu FHingar bara tökin og breyttu stöðunni í 11-6 og þannig var staðan í hálfleik, magnaður fyrri hálfleikur hjá FH. Vörnin og markvarslan frábær og Grótta átti engin svör.

Í byrjun síðari hálfleiks héldu FH áfram og héldu forystunni í 5-6 mörkum en í stöðunni 16-10 hikstuðu þeir aðeins og Grótta gekk á lagið og minnkuðu muninn í 16-14. Þrátt fyrir það voru FH rólegir og héldu haus og voru ekkert að stressa sig komust í 20-17. Þeir héldu alltaf forystunni og leyfðu Gróttu aldrei að jafna leikinn, Grótta komst næst í 23-20 en svo misstu þeir mann útaf í 4 mín sem fékk að lokum rautt spjald fyrir kjaft og FH vann að lokum sanngjarnan og frábæran sigur 27-23. Allt liðið spilaði vel en bestir voru þeir Siggi í markinu sem var 20 ef ekki fleiri bolta, Dóri sem skoraði 8 mörk og Bjarki Jónsson fyrirliði sem skoraði 5 mörk, Þorkell Magnússon var einnig drjúgur með 6 mörk en allt í allt var þetta varnarsigur en liðið var feykisterkt í vörninni þar sem Ísak Rafnsson var að stjórna eins og herforingi. Það var vel mætt í krikann í kvöld en hátt í 250-300 manns voru á staðnum og góður stuðningur var við liðið. Næsti leikur er næsta föstudag eða 15.október gegn Selfoss U á Selfossi kl 19:30 og við hvetjum sem flesta til að sjá sig fært til að mæta og styðja við strákana.

Guðlaugur Valgeirsson skrifar.


Aðrar fréttir