FH – Valur á mánudaginn

Ágætu FH-ingar.
 
Það eru Íslandsmeistarar Vals sem munu heimsækja Kaplakrikavöll mánudagskvöldið 20. maí á stundvíslega kl. 19:15. Eins og ávallt er um mikilvægan leik að ræða fyrir okkar menn, en FH-liðið fær dauðafæri til að sýna að síðasti leikur liðsins hafi verið stórslys og jafnframt komið í veg fyrir að Valur komist á skrið eftir dapra byrjun. Flestir sparkspekingar hafa spáð þessum liðum góðu gengi í sumar og því ljóst að bæði lið hafa til mikils að vinna.
 
Liðin mættust síðast á verkalýðsdaginn 1. maí sl. í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Fimleikafélagið lék við hvern sinn fingur og uppskar að lokum góðan 1-2 sigur sem hefði þó mátt vera stærri miðað við hvernig leikurinn spilaðist. Síðan þá hafa liðin átt misjöfnu gengi að fagna. FH-ingar gerðu jafntefli gegn Víkingi Reykjavík, þrátt fyrir að hafa verið manni færri allan síðari hálfleik, sigruðu KA 3-2 í háspennuleik, en töpuðu síðan 0-2 fyrir sprækum Skagamönnum. Valsmenn hafa aftur á móti tapað gegn KA og ÍA en unnu öfluga Fylkismenn 1-0 í síðasta leik.
Mikið hefur verið ritað um vandræði Valsmanna í upphafi mótsins, innan sem utan vallar, og telur undirritaður óþarft að endurtaka þann fréttaflutning. Aftur á móti er alveg á kristaltæru að Valsliðið er feykilega öflugt og ekki má afskrifa liðið þrátt fyrir brösuga byrjun.
 
Á Hlíðarenda er valinn maður í hverju rúmi. Við FH-ingar þekkjum vel miðjumótorinn Einar Karl Ingvarsson, en hann lærði allt sem hann kann á efra grasinu á Kaplakrikasvæðinu. Þá lék færeyski vængmaðurinn Kaj Leo Í Bartalsstovu 7 leiki með Fimleikafélaginu síðari hluta sumarsins 2016. Hann hvorki skoraði né lagði upp fyrir okkur en hann fékk gult spjald í ótrúlegum 2-3 sigri á Fylkismönnum þar sem Davíð Þór Viðarsson skoraði eftirminnilegt mark – líklega það fallegasta sem hann hefur skorað og er þar af nægu að taka.
 
Þá verður ekki hjá því komist að nefna á nafn FH-inginn Ólaf Jóhannesson sem þjálfar nú á Hlíðarenda. Þessi sigursæli þjálfari var síðast við stjórnvölin hjá á árunum 2003-2007 og gerði liðið þrisvar að Íslandsmeisturum og að bikarmeisturum 2007.
 
FH-hefur sigrað 2-1 í tvö síðuðstu skipti sem þessi lið hafa mæst á Íslandsmótinu í Kaplakrika. Raunar hefur Valsliðið ekki sigrað á Kaplakrikavelli frá því í frægum leik árið 2007 þegar Valur sigrðuðu 0-2 og svo gott sem tryggðu sér titilinn. Ég tel enga ástæðu til að bregða út af þessum góða vana og býst því við góðum FH-sigri á mánudagskvöldið.
 
Leikurinn hefst klukkan 19:15. Á FH-pallinum verður rosaleg dagskrá klukkutíma fyrir leik og ég hvet alla FH-inga til þess að mæta og styðja liðið. Það er í þessum leikjum sem liðið þarf mest á stuðningi að halda. Allir á völlinn og áfram FH! #ViðerumFH
 
Árni Grétar Finnsson, FH-ingur!

Aðrar fréttir