
Fimm FH-ingar í úrtaksæfingum næstu tvær helgar
Áfram halda FH-ingar að verða valdir í kvennalandslið Íslands, en næstu tvær helgar verða fimm FH-stelpur í eldlínunni með landsliðum Íslands. Guðný Árnadóttir hefur verið valin í úrtaksæfingar fyrir A-landslið kvenna, en valdir hafa verið 25 leikmenn til æfinga undir stjórn landsliðsþjálfarans Freys Alexanderssonar helgina 25. – 27. nóvember. Guðný var lykilmaður í góðu liði FH í sumar sem lék á alls oddi og lenti í 6. sæti í deildinni undir dyggri stjórn Orra Þórðarsonar og Guðna Eiríkssonar.
Fleiri leikmenn sem spiluðu með meistaraflokki í sumar verða í eldlínunni um næstu helgi, en þær Aníta Dögg Guðmundsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir æfa með U17 landsliði kvenna um næstu helgi. Liðið er að undirbúa sig fyrir milliriðla fyrir EM, en þær tryggðu sér sæti þangað á dögunum. Karólína spilaði með meistaraflokki í sumar, en Aníta varði mark 2. flokks og var varamarkmaður í meistaraflokki. Tvær aðrar; þær Helena Ósk Hálfdánardóttir og Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir æfa svo með U16 ára landsliði kvenna, en Helena tryggði meðal annars FH mikilvægan sigur á Fylki í Pepsi-deildinni í sumar.
FH óskar stelpunum öllum til hamingju og vonar að þeim gangi sem allra, allra best um næstu helgi og þá þar næstu. Þetta sýnir einnig hversu góða hluti FH er að gera í kvennaboltanum og vonandi mun sú þróun halda áfram.