Final 4 bíður okkar manna | Áfram í bikarnum eftir annan sigur í Safamýri!

Undanúrslit í bikar eru framundan hjá liði FH eftir að liðið lagði Fram að velli í Safamýri í kvöld, 28-32, í baráttuleik. Um var að ræða þriðja leik FH-liðsins á árinu, og jafnframt þriðja sigur þess.

Á leiðinni í Höllina!

Á leiðinni í Höllina!

Ljóst var frá því snemma að leiknum að Framarar ætluðu sér ekki að láta FH-liðið leggja sig jafn auðveldlega og viku áður, þegar okkar menn sóttu 10 marka sigur í greipar Framara í deildinni. Strákarnir okkar höfðu yfirhöndina fyrsta korterið í leiknum, en þegar Framarar komust marki yfir um það leyti þá var eins og þungri byrði hefði verið létt af Safamýrarpiltum – þeir höfðu jú aldrei haft forskotið í leik liðanna fyrir viku, og þessi kærkomna forysta varð þess valdandi að þeir virtust öðlast meiri trú á verkefnið.

Liðin skiptust á að vera með forystuna fram að hálfleik, en það voru á endanum Framarar sem leiddu með þriggja marka mun þegar liðin gengu til búningsherbergja. Ágeng vörn þeirra hafði gengið hraustlega út gegn okkar liði og slegið taktinn úr sóknarleik þess, og á meðan virtust Framarar sjálfir finna lausnir á vörn FH-liðsins í meira mæli en Halldóri Jóhanni hefur líkað. Framarar fengu einnig sinn skerf af hraðaupphlaupum fyrir tilstilli varnar sinnar, og eins og við FH-ingar höfum séð oft í vetur okkar megin þá eru þau mörk afar dýrmæt.

Heimamenn hófu síðari hálfleikinn með stæl, en sirkusmark Elíasar Bóassonar – sem var afar keimlíkt þeim fjölmörgu sirkusmörkum sem FH hefur skorað í vetur – kom heimamönnum fjórum mörkum yfir, og útlitið orðið ansi gott hjá þeim. FH-ingar létu það þó ekki slá sig út af laginu, heldur héldu þeir ró sinni og trúðu áfram á að með öguðum sóknarleik og bætingu í vörninni myndi meðvindurinn snúast, okkur í hag.

Sú varð líka raunin. Vörn FH fór að ná fleiri stoppum heldur en framan af leik, og fyrir vikið tók Ágúst Elí sína bolta þar á bak við. Á 41. mínútu var staðan orðin jöfn að nýju, 19-19, og eftir það var eiginlega varla spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi. Strákarnir hafa verið í toppformi upp á síðkastið, og þegar þessi erfiðasti kafli leiksins var yfirstaðinn þá var leiðin í Höllina orðin bæði styttri og greiðari. Dyggilega studdir áfram af fjölmörgum FH-ingum, sem mættu og létu vel í sér heyra í Safamýri í kvöld, hófu strákarnir okkar að byggja upp forystu sem þeir síðan létu aldrei af hendi. Lokatölur í Framhúsinu 28-32, FH í vil, og sæti í Final 4 því gulltryggt!

Einar Rafn Eiðsson, Óðinn Þór Ríkharðsson og Arnar Freyr Ársælsson áttu allir mjög flottan leik á sínum gamla heimavelli, en þeir voru markahæstir í liði FH með 6 mörk hver. Jóhann Birgir Ingvarsson kom næstur þeim í markaskori með 5 mörk, en hann var áræðinn í leiknum og þurftu Framarar oft að brjóta ansi illa af sér til að ná á honum einhverju taki.

Líkt og áður kom fram hafa FH-ingar tryggt sér sæti í undanúrslitum Coca-Cola bikarsins með sigri kvöldsins, og því ber að fagna. ,,Final 4″ eru án nokkurs vafa skemmtilegasti staki handboltaviðburður sem fram fer á Íslandi í dag, og þekkjum við FH-ingar það vel eftir að hafa tekið þátt í honum og komist í úrslit í hitteðfyrra. Það er markmið sérhvers leikmanns að standa á þessu stærsta sviði í íslenskum handbolta, dúknum í Laugardalshöll yfir bikarúrslitahelgi, og þangað eru strákarnir okkar komnir. Það er jafnframt draumur sérhvers leikmanns að fá að hampa bikarnum sjálfum, og því eru okkar menn komnir skrefi nær.

FH-ingar voru í miklum meirihluta í Safamýri í kvöld.

FH-ingar voru í miklum meirihluta í Safamýri í kvöld. Takk fyrir komuna!

Það er því ærið tilefni til að hlakka til föstudagsins 24. febrúar næstkomandi, þegar undanúrslitaleikirnir fara fram. Ég treysti því að þið takið daginn frá, kæru FH-ingar, því stuðningur ykkar er ómetanlegur! Það sýndi sig í kvöld þegar Framarar voru með sitt mesta forskot. FH-ingar voru í miklum meirihluta í stúkunni í kvöld, og þegar að á móti blés þá var stuðningurinn við liðið sem mestur. Traustir í meðbyr, tryggir í meðbyr – líkt og sönnum FH-ingum sæmir.

Tökum næsta skref saman, og hirðum þennan bikar. Það er kominn tími til.

Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 6/2, Óðinn Þór Ríkharðsson 6, Arnar Freyr Ársælsson 6, Jóhann Birgir Ingvarsson 5, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Jóhann Karl Reynisson 3, Ágúst Birgisson 2, Ásbjörn Friðriksson 1.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 14/1.

Aðrar fréttir