Firnasterkar FH-stelpur flugu í 8-liða úrslitin

Stelpurnar okkar tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum Coca Cola bikarsins með stæl, er þær lögðu lið Víkings að velli í Fossvoginum í kvöld. Lauk leiknum með 24 marka sigri FH-liðsins, 18-42, eftir að það hafði leitt með 10 marka mun í hálfleik, 10-20.

Það var greinilegt allt frá upphafi í hvað stefndi. FH-stelpur mættu til leiks af miklum krafti, og voru komnar með 8 marka forskot (1-9) þegar 10 mínútur voru liðnar af leiknum. Allar aðgerðir voru hárbeittar, og liði Víkings var refsað fyrir hver mistök.

Um miðjan fyrri hálfleik virtust stelpurnar slaka aðeins á klónni, sem kom í veg fyrir að munurinn í hálfleik yrði meiri en 10 mörk. Einnig sýndu Víkingar góða baráttu og  aðdáunarverða í ljósi þess, að þær voru að leika sinn þriðja leik á fimm dögum.

Ragnheiður verður á harðahlaupum í martröðum Víkinga næstu nætur / Mynd: Brynja T.

Í síðari hálfleik keyrðu stelpurnar hins vegar tempóið upp á nýjan leik, sem heimastúlkur réðu ekki við. Forskotið jókst jafnt og þétt, og þegar upp var staðið varð munurinn 24 mörk, líkt og áður hefur komið fram. Flott frammistaða á alla vegu, sem skilar stelpunum okkar í 8 liða úrslitin.

Afar góðir hlutir voru að gerast í Víkinni í kvöld. Fyrir það fyrsta var hugarfarið upp á tíu. Það var ánægjulegt að sjá, að stelpurnar duttu aldrei í eitthvað vanmat. Þá var sóknarleikurinn verulega skemmtilegur á að horfa, boltinn fékk að fljóta hratt og vel og ógnin af liðinu var stöðug.

Það er gaman að greina frá því, að erfitt er að taka einhvern einn leikmann út úr FH-liðinu í kvöld. Allar eiga stelpurnar hrós skilið fyrir sína frammistöðu. Að því sögðu, þá kæmi það ekki á óvart þótt Ragnheiður Tómasdóttir og Sylvía Björt Blöndal myndu ásækja Víkinga í draumi í nótt. Ragnheiður skoraði 11 mörk í leiknum, þar af slatta úr hraðaupphlaupum eins og henni einni er lagið, og Sylvía gerði 9 mörk, en þeirra á meðal voru margar neglur að utan.

Hrafnhildur Anna átti frábæra innkomu í mark FH / Mynd: Brynja T.

Í markinu fóru þær Dröfn Haraldsdóttir og Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir á kostum. Dröfn lék fyrsta korterið eða svo og varði á þeim kafla 7 skot, og gaf þar að auki 3 stoðsendingar. Þá tók Hrafnhildur Anna við, en hún varði heil 16 skot það sem eftir lifði leiks. 23 varin skot í heildina, sem gerir 56% markvörslu. Ekki amalegt það!

Lokaniðurstaðan er sú, að stelpurnar eru í pottinum þegar dregið er til 8 liða úrslita í Coca Cola bikarnum. Við leyfum okkur því að dreyma um Höllina.

Næsti leikur stelpnanna er sannkallaður stórleikur, en á sunnudag halda þær austur fyrir fjall og mæta þar Selfyssingum í toppslag. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Mörk FH: Ragnheiður Tómasdóttir 11, Sylvía Björt Blöndal 9, Fanney Þóra Þórsdóttir 6, Aþena Arna Ríkharðsdóttir 4, Emilía Ósk Steinarsdóttir 4, Diljá Sigurðardóttir 3, Andrea Valdimarsdóttir 2, Aníta Theodórsdóttir 2, Arndís Sara Þórsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 16, Dröfn Haraldsdóttir 7.

Aðrar fréttir